Löskuð Flórída opnar faðminn

Ferðamálasamtök í Flórída hafa hrundið af stað markaðsherferð til að vinna gegn neikvæðum áhrifum af völdum fellibylsins sem gekk þar yfir á dögunum og olli miklu tjóni. Mest varð tjónið á suðvestanverðum Flórídaskaga.

florida fort myers
Ströndin á Fort Myers á Flórída á góðum degi

Veðurlag er meðal þess sem mótar orðspor landsvæða og hefur áhrif á gengi ferðaþjónustu. Þeir sem kæra sig alls ekki um að klæðast flíspeysu, úlpu og húfu í fríinu sínu eru ólíklegir til að heimsækja Ísland. Flórída yrði frekar fyrir valinu. En hvaða áhrif hafa fréttir af stórviðrum þar eins og af eyðileggingunni sem fylgdi fellibylnum Ian á dögunum? Ian var ógnarlegasti fellibylur sem gengið hefur á land á Flórídaskaganum frá árinu 1935. Hið minnsta 119 létu lífið, margt fullorðið fólk, stór hluti þess drukknaði í hamförunum. Auðvitað laskaðist orðspor sólskinsríkisins.

Fram að þessum ósköpum hafði verið uppgangur í ferðaþjónustunni í Flórída. Um 69 milljónir manna höfðu heimsótt skagann á árinu. Ferðavefurinn Skift hefur eftir Dana Young, forstjóra Visit Florida, sem eru ferðamálasamtök og einkarekin markaðsskrifstofa ferðaþjónustunnar í ríkinu, að litið hafi út fyrir að ferðamannafjöldinn í ár færi yfir töluna frá árinu 2019. Hún segist enn halda í vonina um að það takist. En sú von byggist á því að þau sem höfðu skipulagt Flórídaferð velji aðra staði innan ríkismarkanna frekar en að hverfa eitthvert annað. 

Visit Florida hefur þegar brugðist við áföllunum sem fylgdu fellibylnum Ian og hamra járnið í nýrri markaðsherferð sem ber yfirskriftina Sólin skín í Flórída. Markmiðið er að láta fólk vita að Flórídaríki sé opið og öruggt fyrir gesti. Í kynningarefninu eru birtar myndir af stöðum sem sem ekki urðu fyrir neinum skakkaföllum í fellibylnum á dögunum.

Mesta tjónið varð í suðvesturhluta Flórída, á Fort Myers-ströndinni, á eyjunum Sanibel og Pine, og í hluta Collier-sýslu þar sem er að finna þekkta strandbæi og svæði: Naples og Marco-eyju. Annars staðar í Flórída ætti ferðamaðurinn ekki að sjá mikil merki þess að fellibylur hafi riðið yfir. Í Orlando, Tampa og St.Augustine gengur lífið sinn vanagang í ferðaþjónustunni. Á Fort Myers-ströndinni, sem hefur verið vinsæll áfangastaður ferðafólks, varð töluvert tjón en uppbygging þar er hafin og jafnvel hafa einhver hótel þegar verið opnuð gestum.