Á fundi Íslandsbanka um efnahagshorfur sem fram fór í Hofi á Akureyri í morgun lýsti Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu Norðurlands, bjartsýni um framtíð millilandaflugs um Akureyrarflugvöll eftir að Niceair hóf starfsemi sína. Hún telur góðar horfur á að flogið verði í beinu flugi til átta til tíu áfangastaða, auk tengiflugs Icelandair milli Akureyrarflugvallar og Keflavíkurflugvallar á næsta ári. Þetta gæti þýtt að 600 til 700 flugferðir í millilandaflugi verði um Akureyrarflugvöll með 40 til 50 þúsund farþega.

Samkvæmt heimildum Túrista hafa aðilar á vegum hollenska flugfélagsins KLM verið í könnunarviðræðum við fulltrúa ferðaskrifstofa um hvort fýsilegt gæti verið að fljúga með farþega beint til Akureyrar en Transavia, dótturfélag KLM, hefur flogið norður með jöfnu millibili frá Hollandi.
Þá hefur breska flugfélagið Easyjet jafnframt í nokkur ár skoðað möguleikana á flugi til Akureyrar. Vonast hafði verið til að það gæti hafist strax í næsta mánuði en úr því verður ekki. Efnahagsaðstæður í Bretlandi eru ekki uppörvandi hvað varðar þessar áætlanir allar.
Viðmælendur Túrista segja of snemmt að segja til um hvað komi út úr þessum þreifingum og Arnheiður Jóhannsdóttir sagðist í morgun ekkert geta staðfest annað en að margt væri í skoðun.
Líklegt er að ákvörðun Condor um að hefja áætlunarflug frá Frankfurt til Akureyrar og Egilsstaða næsta vor ýti við öðrum í fluggeiranum.

Framkvæmdir við 1.100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli standa yfir og er áætlað að hún verði tilbúin haustið 2023. Tafir hafa orðið á verkinu, ekki síst vegna vandræða með aðföng. Nýtt flughlað verður malbikað næsta sumar. Þá verður haldið áfram með uppfyllingar og undirbúning lóða fyrir flugskýli og betri aðstöðu á vellinum.