Nýir matsölustaðir í Leifsstöð

MYND: ISAVIA

Jómfrúin og nýr staður sem fær heitið Elda opna í Leifsstöð í febrúar á næsta ári. Báðir tveir eru á vegum SSP Group sem átti hagkvæmasta tilboðið í útboði Isavia á rekstri veitingastaða í flugstöðinni en þrjú fyrirtæki uppfylltu hæfikröfur útboðsins.

SSP Group er bresk samsteypa sem rekur hátt í þrjú þúsund matsölustaði og verslanir á meira en 180 flugvöllum.

Í tilkynningu frá Isavia segir að nýju staðirnir verði á annarri hæð í norðurbyggingu flugstöðvarinnar.

„Elda verður nútímalegur og notalegur staður sem býður upp á hraða þjónustu, heita og kalda rétti og hentar fjölbreyttum hópi farþega á öllum tímum sólahringsins. Jómfrúin verður afslappaður veitingastaður sem býður sinn fjölbreytta matseðil, blandaðan íslenskri og skandinavískri matargerð. Munu viðskiptavinir beggja veitingastaða eiga völ á að panta beint að borðinu í gegnum sérstakan QR kóða, til þess að forðast biðraðir,“ segir í tilkynningu.

„Við erum að taka á móti mjög breiðum hópi farþega sem hefur mismunandi þarfir, við viljum að úrval veitingastaða endurspegli það og jafnframt ýti undir íslenska upplifun. Þar af leiðandi fögnum við því að fá jafn rótgróinn íslenskan veitingastað inn í fjölbreytta flóru veitingastaða á Keflavíkurflugvelli og Jómfrúnna á sama tíma og við bjóðum reynsluboltana hjá SSP velkomin. Flugstöðin á að vera staður sem fólk nýtur þess að heimsækja og allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi,“ skrifar Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslana og veitinga hjá Isavia, í tilkynningu.