Nýr framkvæmdastjóri hjá Arctic Adventures

Renata Blöndal mun leiða sölu- og þjónustusvið Arctic Adventures MYND: ARCTIC ADVENTURES

Renata Blöndal hefur verið ráðin til ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures þar sem hún tekur við stöðu framkvæmdastjóra sölu- og þjónustu.

Í tilkynningu segir að Renata búi yfir tíu ára reynslu úr tæknigeiranum en hún kemur til Arctic Adventures frá hugbúnaðarfyrirtækinu PayAnalytics þar sem hún starfaði sem framkvæmdastjóri markaðsmála. Áður hefur Renata einnig starfað hjá CCP, Meniga, Landsbankanum og Krónunni þar sem hún bar meðal annars ábyrgð á Snjallverslun Krónunnar. Renata er með M.Sc. gráðu í Management Science and Engineering frá Columbia háskóla í New York og lauk B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

„Það er mikill ávinningur og styrkur að fá Renötu til liðs við okkur hjá Arctic Adventures. Renata hefur starfað fyrir fjölda framúrskarandi fyrirtækja hérlendis og býr meðal annars yfir mikilli reynslu af þróun og innleiðingu snjalllausna. Við erum sjálf stöðugt að horfa til þess að bæta stafræna upplifun viðskiptavina okkar og viljum auðvelda þeim að skipuleggja ferðir sínar með okkur. Ég sé mikil tækifæri í áframhaldandi nýsköpun í ferðaþjónustu, bæði á Íslandi og á norðurslóðum og er Renata þar af leiðandi mikilvæg viðbót inn í Arctic Adventures teymið,“ skrifar Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Arctic Adventures, í tilkynningu.

Þar er haft eftir Renötu að ferðaþjónustan sé lifandi geiri sem eigi mikið inni þegar kemur að notkun tækni til þess að bæta þjónustuupplifun, sjálfvirknivæða og straumlínulaga ferla.

„Þá er mikilvægt að vera á tánum og bregðast við breyttum ferðavenjum og samkeppnisumhverfi með aukinni áherslu á sjálfbærni. Ég hlakka mikið til að vinna með þeim öfluga hópi sem starfar hjá Arctic Adventures,“ segir Renata.

Arctic Adventures skipuleggur, selur og sér um framkvæmd ferða og afþreyingar og er eitt rótgrónasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins sem teygir sögu sína til ársins 1983. Um 200 manns starfa hjá fyrirtækinu, bæði á Íslandi og í Vilnius en fyrirtækið keypti nýverið tvö fyrirtæki sem sérhæfa sig í ferðum um Alaska og Kanada. Kaupin voru liður í þeirri stefnu Arctic Adventures að vera leiðandi afl í ferðaþjónustu á norðurslóðum með áherslu á sjálfbærni og gæði.