Ólafur Þór tekur við af Þóru

Ólafur Þór Jóhannesson er nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play.

Ólafur Þór Jóhannesson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play og tekur hann við starfinu af Þóru Eggertsdóttur sem sagði starfi sínu lausu fyrir helgi.

Ólafur Þór gegndi starfi forstjóra, aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra fjármálasviðs Skeljungs á árunum 2019 til 2022 en Play er einmitt með samning við Skeljung um fast verð á 15 prósent af því eldsneyti sem flugfélagið kaupir á yfirstandandi ársfjórðungi. Samningsverðið er 1.166 bandaríkjadollarar á tonnið en til samanburðar er heimsmarkaðsverðið 1.191 dollari í dag.

Svona samningar eru í raun veðmál þar sem annað hvort Play eða Skeljungur tapar á samningstímanum.

Í tilkynningu frá Play þá segir Ólafur Þór að hann sé þakklátur fyrir það tækifæri að fá að vera þátttakandi í áframhaldandi uppbyggingu Play sem er að hans mati á mjög áhugaverðum stað.

„Ég hlakka til að fá að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem eru framundan og vonast til þess að reynsla mín og þekking úr ólíkum atvinnugreinum komi félaginu að gagni.“