Play mun stundvísara en Icelandair

Þota Play við Stansted í London. MYND: LONDON STANSTED

Play flutti 92 þúsund farþega í september og að jafnaði var sætanýtingin 81,5 prósent í mánuðinum að því segir í tilkynningu. Þar kemur einnig fram að ferðir félagsins hafi veri á réttum tima í 86 prósent tilvika. Það er mun betri frammistaða en hjá Icelandair því aðeins 71 prósent ferða þess félags var á áætlun í september.

Í tilkynningu frá Icelandair í gær sagði að lakari stundvísi skrifaðist meðal annars á vont veður við Keflavíkurflugvöll. Þau veðurskilyrði hafa þá haft mismunandi áhrif á starfsemi keppinautanna.

„Við erum nokkuð ánægð með sætanýtinguna fyrir septembermánuð enda mánuður sem alla jafna er krefjandi í fluggeiranum. Þá eru vetrarmánuðirnir sem fram undan eru jafnframt venjulega krefjandi fyrir flugfélög en salan hjá okkur hefur hins vegar verið sterk síðustu vikur eftir rólegt tímabil síðsumars. Við höldum því áfram á okkar vegferð; bætum við áfangastöðum, flugvélum og starfsfólki fyrir næsta sumar. Styrkur tengiflugsleiðakerfisins býr til sveigjanleika til að bregðast við þegar eftirspurn sveiflast á milli markaða. Það er einmitt vegna sveigjanleikans sem við förum örugg inn í veturinn. Daglegur rekstur stendur áfram styrkum fæti, við erum stolt af stundvísi félagsins og viðskiptavinir okkar eru alla jafna mjög ánægðir með þjónustu Play. Þessi atriði gera mig stoltan af starfsfólki Play á hverjum degi og gera það að verkum að ég horfi bjartsýnn til framtíðar,“ skrifar Birgir Jónsson, forstjóri Play, í tilkynningu.