Pundið styrkist

Fyrir helgi fengust 159 krónur fyrir 1 pund. Það er tíu prósent minna en fyrir ári síðan. MYND: STEVE SMITH / UNSPLASH

Nú í morgunsárið sögðu bresku blöðin Financial Times og Guardian því að ríkisstjórn Bretlands ætli að setja áform sín um umfangsmiklar skattalækkanir á ís. Ástæðan mun vera ónægur stuðningur við málið meðal þingmanna Íhaldsflokksins en margir í þeim röðum hafa gagnrýnt áform þá fjármálaáætlun sem kynnt var í síðustu viku. Tillögur um afnám hátekjuskatts af verið sérstaklega umdeildar í röðum stjórnarandstæðinga.

Í kjölfar þessara tíðinda morgunsins hefur pundið styrkst gagnvart dollara og evru. Það eru jákvæð tíðindi fyrir ferðageirann í Bretlandi og líka hér heima. Yfir vetrarmánuðina á íslensk ferðaþjónusta nefnilega mikið undir breskum túristum komið. Sögulega veikt breskt pund hefur því verið áhyggjuefni þó vissulega komi það sér vel fyrir Íslendinga á leið til Bretlands í frí.

„Það er erfitt að segja til um það núna hver nákvæmlega áhrifin af falli pundsins verða. Enn eru flugferðir í boði og vonandi koma þeir Bretar áfram sem á annað borð hafa efni á því,“ sagði Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Arctic Adventures, í viðtali við Túrista um helgina þar sem hún var spurð út í horfurnar á breska markaðnum í kjölfar sögulegrar lækkuna pundsins.

Þess má geta að miðað við opinberar tölur hér á landi þá eyða breskir ferðamenn miklu minna núna en áður í ferðalögum sínum hér á landi. Og í ljósi þess að Bretar hafa verið fjölmennasti í hópi erlendra ferðamanna yfir veturinn þá er vert að hafa áhyggjur af þessari þróun að því gefnu að hinir opinberu mælikvarðar gefi rétt mynd af stöðunni.