Samfélagsmiðlar

Púrtvín í 36 gráðum

Play hefur ákveðið að fljúga tvisvar í viku milli Keflavíkur og Porto, næst stærstu borgar Portúgals, frá apríl til októberloka á næsta ári. Jafnframt segist Play ætla að halda áfram flugi tvisvar í viku til Lissabon eins og í sumar. Áhugavert verður að fylgjast með því hversu margir koma til með að nýta sér þetta stóraukna framboð á sumarferðum milli Íslands og Portúgals.

Gamlir vínflutningabátar við festar í Gaia. Horft yfir í Ribeira-hverfið í Porto.

Þau sem ferðuðust í sumar til Lissabon en höfðu áhuga á að fara líka til Porto gátu auðveldlega gert það með því að hoppa upp í lest á Oriente-stöðinni í Lissabon, halla sér aftur á bak og sjá landslagið líða hjá í um þrjár klukkustundir á leiðinni á Campanhã-stöðina í Porto. Fargjaldið fyrir einn fullorðinn aðra leið var 56 evrur. Þessir möguleikar verða auðvitað til staðar á næsta ári hvort sem lent er í Lissabon eða Porto. Fólk ætti líka að geta valið til hvorrar portúgölsku borgarinnar það flýgur og frá hvorri það heldur heim á leið. Auðvitað er kappnóg að sjá og njóta í þessum borgum, hvorri fyrir sig, og í næsta nágrenni þeirra. Eftir á að koma í ljós hvor borgin verður vinsælli meðal íslenskra ferðamanna næsta sumar en Túristi naut þess í sumar að skoða þær báðar. 

Nokkrar afurðir Douro-dalsins. Í baksýn áin og hús Cálem-púrtvínsgerðarinnar í Gaia – Mynd: ÓJ

Lissabon og Porto eru auðvitað keppinautar að fornu og nýju, eins og segja má um Madríd og Barselóna, Edinborg og Glasgow – og auðvitað Reykjavík og Akureyri. Nú birtist þessi samkeppni skýrast á knattspyrnuvellinum þegar erkifjendurnir F.C. Porto og Benfica frá Lissabon mætast. Porto vann þrjár síðustu viðureignir.

Siglt á Douro í vægðarlausu sólskini – Mynd: ÓJ

Við ætlum ekki að fara í djúpan samanburð á Lissabon og Porto. Höfuðborgin Lissabon er stærri, nútímalegri og kraftmeiri í augum gestsins. Porto geymir eldri arf húsa, er dulúðleg og á einhvern sérstakan hátt framandi. Heillandi borgir báðar tvær. Þetta eru suðrið og norðrið. 

Horft frá Gaia yfir Douro og Ribeira-hverfið í Porto. Mávurinn spakur – Mynd: ÓJ

Fyrir fólk sem kann að meta góð vín og hefur áhuga á að kynnast því hvernig þau verða til er engin spurning hvor borgin er meira spennandi. Porto varð ekki síst voldug miðstöð vegna einstakra skilyrða til vínræktar í Douro-dalnum. Porto stendur við bakka Douro-árinnar og þaðan var vínið flutt burt á markaði í öðrum löndum. Frægasta afurðin auðvitað púrtvínið en úr dalnum koma líka gæðavín, rauð og hvít, sem njóta viðurkenningar sem hin bestu í landinu með DOC-stimpilinn (Denominação de Origem Controlada). Sagt er að 80 berjategundir séu nýttar til víngerðar en aðallega þó fimm: Touriga Nacional, Touriga Franca, Tinta Barroca, Tinto Cao og Tinta Roriz. 

Vínviður í Douro – Mynd: ÓJ

Nú er uppskerutíminn í Douro-dalnum langt kominn. Fullþroskaðum þrúgunum sem bakast hafa í heitri sumarsólinni er safnað saman og fyrsti áfangi framleiðslu á léttvínum og púrtvíni hefst. Þessi tími er sveipaður rómantík og fjöri en veruleikinn er sá að mikið og erfitt verk er unnið af þaulskipulögðum vinnuflokkum á um þriggja vikna tímabili. Berjaklasarnir eru klipptir af viðnum og settir í kassa og þarf fólkið að bera einn af öðrum, um 20 kíló á þyngd, á bíla sem flytja þrúgurnar í vinnslustöðina.

Horft yfir til Porto frá Gaia. Sér í Dom Luís I-brúna, eitt helsta tákn Porto – Mynd: ÓJ

Skemmd ber og rusl er fjarlægt af færibandi sem flytur þrúgurnar í stóra þró. Þegar um er að ræða ber í púrtvínsgerð eru þau kramin með taktvissum fótum fólksins sem helst í hendur ofan í þrónni. Eftir að safanum hefur verið þrýst úr berjunum er hann látinn gerjast í þrjá daga og síðan heldur vinnslan áfram, berjavínið er styrkt með brandí og berjagerjunin þannig stöðvuð. Púrtvínið er geymt í eikartunnum í a.m.k. tvö ár. Tunnugerðir og geymslutími ráða bragði og lit. 

Sandeman-víngerðin í Gaia. Þar er búið til púrtvín og sérrí – Mynd: ÓJ

Púrtvín náði fótfestu í Englandi með hernaðar- og viðskiptasamkomulagi sem var gert við Porúgal árið 1703 eftir spönsku erfðastríðin. Englendingar gátu flutt inn þetta styrkta vín frá Portúgal með lágum tollum á meðan stríð kom í veg fyrir hefðbundinn innflutning á frönsku víni. Vegna þess að vínið var styrkt þoldi það volkið í sjóflutningum til Englands. Með þessu hófst löng saga enskra ítaka í víngerð og framleiðslu í Douro-dalnum og Porto.

Horft yfir þök Sandeman-víngerðarinnar yfir Douro í átt að Porto – Mynd: ÓJ

Raunar fer sjálf púrtvínsframleiðslan ekki fram þarna í dalnum heldur í Vila Nova de Gaia, eða bara Gaia, bæ sem stendur gegnt Porto. Það er gaman að ganga á milli yfir hina mögnuðu brú Dom Luís I. Lofthræddir eru þó varaðir við að fara of nærri handriðinu.

Útsýn af Ponte Dom Luís I, hábrúnni mögnuðu – Mynd: ÓJ

Mörg púrtvínshúsanna í Gaia, sem standa við og fyrir ofan árbakkann, bera ensk og skosk nöfn enn í dag: Cockburn, Croft, Graham, Osborne, Sandeman, Taylor. Mörg vínhúsin heyra þó undir samsteypur á áfengis- og drykkjarvörumarkaði heimsins. Þarna getur áhugafólk fræðst um þessa víngerð og sögu hennar, sem er löng, nær langt aftur fyrir ensk umsvif. Rómverjar sáu fljótt að Douro-dalurinn hentaði vel til vínræktar. Svokallað míkróloftslag einkennir svæðið, aflokað með háum fjöllum: heitt á sumrin en kalt á vetrum. 

São Cristóvão do DouroMynd: ÓJ

Það var einmitt mjög heitt í sumar þegar Túristi fór í kynnisferð um Douro-dalinn í hópi ferðafólks. Lagt var upp frá Porto að morgni og ekið inn í landið, upp í fjöllin sem umlykja dalinn Portúgals-megin, en hluti Douro er handan spönsku landamæranna. Sólin skein glatt og hitinn var nærri óbærilegur, um 36 selsíusgráður. Rútan var hinsvegar loftkæld og gott að hlusta á Anabela Alves, leiðsögumann, segja frá sögu svæðisins og vínræktinni. Inn í frásagnir blandaðist fróðleikur um ýmislegt sem Portúgalar samtímans eru að takast á við, ekki síst ógnir loftslagsbreytinganna.

Anabela Alves, leiðsögumaður – Mynd: ÓJ

Út um glugga rútunnar mátti í fjarska sjá reykinn stíga upp frá eldum sem kviknað höfðu í hitabrækjunni. Anabela sagði að ein ástæða þess hversu oft kviknuðu eldar væri að gróðursett hefðu verið svo mörg eucalyptus-tré, eða gúmmitré, frá Ástralíu. Þau væru þurftafrek á jarðvegsvatn, annar gróður visnaði og þornaði upp. Það settist að Túrista óhugur. Hvað var hann að þvælast með dísilrútu langt upp í fjallasali, þar sem meiri hiti en áður þekktist ógnar framtíð byggðar og vínræktar? Enginn þorir að segja til um það hvaða framtíð bíður þeirra sem enn búa við Douro og hafa lifibrauð af víngerð og öðrum landbúnaði. 

Gróðureldar í fjarska – Mynd: ÓJ

Meðal viðkomustaða í þessari kynnisferð sem Túristi brá sér í um Douro-dal var búgarðurinn Quinta da Roêda nærri bænum Pinhão á norðurbakka Douro. Croft-víngerðarin eignaðist búgarðinn árið 1889.

Quinta da Roêda Mynd: ÓJ

Óhætt er að segja að þetta sé einn helsti vínbúgarður Douro-dalsins. Croft-víngerðin sem enskir kaupmenn stofnuðu rekur sögu sína aftur til ársins 1588 en umsvif enskra jukust fyrir alvöru á 18. öld. Þegar komið var fram yfir miðja 19. öld var Croft orðið stórt nafn í púrtvínsframleiðslunni.

Vínekrur á Quinta da Roêda Mynd: ÓJ

Túristi hefur hóflegan áhuga á púrtvíni en lét sig hafa það í nafni vísindanna að hlýða þennan brennheita júlídag á fyrirlestur út á vínakrinum um berin, tínsluaðferðir og eftirvinnslu. Sólin var aðgangshörð og erfitt að verjast henni. Síðan lá leiðin inn fyrir í svalann að smakka á sýnishornum framleiðslunnar. Fáa virtist þó beinlínis þyrsta í púrtvín, Tawny, Ruby og þurrt á ólíkum aldri, til að slökkva þorstann.

Fróðleiksfús hópurinn leggur út á akurinn – Mynd: ÓJ

Hugsanlega lét einhver freistast af nýjustu afurðinni, Croft Pink & Tonic, blöndu af púrtvíni og tóník í áldós, sem er dálítið örvæntingarfull tilraun til að vekja áhuga z-kynslóðarinnar á þessari sætu og styrktu vínblöndu, púrtvíninu. Eftir á að koma í ljós hvernig það gengur. 

Þrjár gerðir púrtvíns – Mynd: ÓJ

Jú, það var gott að láta verða af þessari heimsókn í Douro-dalinn og sjá með eigin augum við hvað þetta samfélag glímir og velta fyrir sér hvert stefnir. Þarna hefur verið gert vín í tvöþúsund ár. Bröttum hlíðum hefur verið breytt, þær brotnar niður með stöllum og hleðslum. Þarna er nú um 25 þúsund hektara vínræktarland. Svo einstakar eru þessar aðstæður allar að UNESCO setti Douro-dalinn á heimsminjaskrá. 

Gáð til veðurs úr svölum og skjólsælum stað – Mynd: ÓJ

Margir kostir fylgja því að fara í skoðunarferð um Douro-dalinn með leiðsögumanni. Maður fær góða yfirsýn á skömmum tíma, er leiddur áfram og fræddur um margt sem er ekki endilega aðgengilegt á netinu. Það er notalegt að sitja í loftkældri rútunni (jafnvel þó grímuskylda hafi verið) og virða landslagið, sveitir og smáþorp fyrir sér út um gluggann.

Tunnusalur múskat-víngerðarinnar í Favaios – Mynd: ÓJ

Auðvitað mætti nefna eitthvað sem maður hefði viljað sleppa í ferðinni eða annað sem hefði kannski verið skemmtilegra að skoða. Þær víngerðir sem komið var við á voru athyglisverðar – ekki endilega þær bestu í Douro en hafa þolinmæði gagnvart ferðafólki, sem birtist með hverri rútunni af annarri.

Konur í pásu í víngerðinni í Favaios – Mynd: ÓJ
Flöskur í Favaios sem bíða áfyllingar af sætu múskatvíni Mynd: ÓJ

Túristi hefur gaman af að skoða vínbúgarða og fræðast um ræktunina, vinnsluna og geymslumátann. Margt sem tengist víngerð er áhugavert: jarðfræðin, plöntufræðin, verkmenningin, tunnuvalið og saga viðkomandi vínræktarhéraðs, bændanna og verkafólksins, sem oft kemur um langan veg á hverju hausti til að vinna við uppskeruna.

En svona eftir á að hyggja, þá gæti sjálft púrtvínið verið örlítið meira spennandi rannsóknarefni þegar nær dregur jólum heldur en það var í 36 gráðu júlíhitanum.   

Horft yfir Douro-dalinn – Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …