Segja eina ferð í viku frá Dusseldorf duga

Í vetur verður hægt að komast héðan beint til Dusseldorf. Mynd: Ferðamálaráð Dusseldorf

Þýska flugfélagið Eurowings, dótturfélag Lufthansa, hefur um langt árabil haldið úti Íslandsflugi en umsvifin hafa þó dregist töluvert saman. Síðastliðið sumar flugu þotur félagsins hingað eingöngu frá Hamborg en þegar mest lét sumarið 2016 þá bauð félagið líka upp á áætlunarflug hingað frá Berlín, Stuttgart, Köln og Dusseldorf.

Nú horfa stjórnendur Eurowings til þess að bæta aðeins í og nú með vetrarferðum til Íslands frá Dusseldorf.

Fyrsta ferðin er á dagskrá fyrir jól og frá og með áramótum munu þotur þýska félagsins fljúga hingað alla sunnudaga fram til 19. mars. Þetta eru því ekki ýkja margir ferðir en talsmaður Eurowings segir í svari til Túrista að framboðið sé einfaldlega í takt við eftirspurnina.

Næsta sumar gerir Eurowings þó ráð fyrir tíðari ferðum hingað og þá bæði frá Dusseldorf og Hamborg.

Icelandair heldur líka úti ferðum til þeirrar síðarnefndu en félagið hefur ekki tekið upp þráðinn í flugi til Dusseldorf. Þangað hóf félagið að fljúga í kjölfar gjaldþrots Airberlin haustið 2017.

Airberlin var stórtækt í Íslandsflugi frá Þýskalandi og fækkaði þýskum ferðamönnum hér á landi umtalsvert við gjaldþrotið eins og Túristi rakti á sínum tíma.