Samfélagsmiðlar

Skóli sem menntar frumkvöðla

„Frumkvöðlar og einyrkjar koma hingað í nám og nýta sér það til að taka sín fyrirtæki alveg í gegn í hagnýtum verkefnum undir leiðsögn sérfræðinga. Nemendur gera rekstraráætlanir, markaðsáætlanir, móta umhverfisstefnu. Þeir vinna með raunveruleg fyrirtæki í huga og fá endurgjöf og leiðbeiningar sérfræðinga," segir Ingibjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri ferðamálafræðideildar Háskólans á Hólum, sem Túristi heimsótti.

Ingibjörg Sigurðardóttir á Hólum

Það má segja að vísindastarf, þekkingarleit og kennsla við Háskólann á Hólum snúi að nýtingu á landi og auðlindum. Þetta á við um fiskeldi og fiskilíffræði, ferðamálafræði og hestafræði, öll þrjú meginsvið kennslunnar á Hólum, þessu forna fræðasetri. Túristi kom þangað í tæru og björtu logni í vetrarbyrjun til að fræðast dálítið um sérstöðu þeirrar nálgunar sem fylgt er í ferðamáladeildinni, sem upp á ensku nefnist Rural Tourism Department og hefur töluverða sérstöðu á heimsvísu. Deildarstjóri er Ingibjörg Sigurðardóttir, sem varði síðastliðið vor doktorsritgerð sína „Hestaferðaþjónusta á Íslandi: Klasaþróun og tækifæri til nýsköpunar“ við viðskiptadeild Háskóla Íslands. Fræðanám hennar hófst á Hólum þar sem hún stýrir nú kraftmiklu starfi ferðamáladeildar. Túristi biður Ingibjörgu fyrst að draga fram hver sé sérstaða ferðamáladeildarinnar þar sem um hundrað manns stunda nú nám.

Kíkt út um glugga – Mynd: ÓJ

„Við leggjum mikla áherslu á náttúru, menningu og samstarf við atvinnulífið – beinar tengingar inn í greinina. Svo er innan deildarinnar nám sem hvergi er í boði annars staðar á landinu. Fyrst er að nefna eins árs diplómanám í viðburðastjórnun. Þá erum við með B.A.-nám í ferðaþjónustu og móttöku gesta (Hospitality management). Aðrir hér á landi bjóða ekki upp á það sem grunnnám á háskólastigi. Nýjasta námsleiðin er alþjóðlegt nám í útivistarfræðum (Outdoor studies), sem er ekki kennt við aðra skóla hér, en þar erum við í samstarfi við skóla í Noregi og Svíþjóð.” 

Sex námsleiðir eru í boði innan ferðamáladeildarinnar á Hólum: diplóma í viðburðastjórnun, diplóma í ferðamálafræði, B.A. í ferðamálafræði, B.A. í stjórnun ferðaþjónustu og móttöku gesta, M.A. í útivistarfræðum og M.A. í ferðamálafræðum. Verknám er hluti af námi flestra og þar nýtur skólinn tengsla við fyrirtæki í greininni.

Tók það Hólaskóla langan tíma að fá viðurkenningu á þessu fræðasviði og vekja áhuga á náminu?

Nemendur og hross – Mynd: Ingibjörg Sigurðardóttir

„Þetta hefur gengið vel alveg frá upphafi. Þar hafa skipt máli miklar tengingar við atvinnugreinina. Þó að námið sé fræðilegt þá erum við í góðu sambandi við ferðaþjónustuna, fylgjum straumum og erum stundum á undan. Mikil þróun er í greininni og hún ört vaxandi.”

Það hefur auðvitað orðið algjör umbylting í ferðaþjónustu hér á landi á starfstíma ferðamáladeildarinnar á Hólum frá 1995 – alveg fram að heimsfaraldrinum. Þá kom raunar í ljós hversu mikill styrkur það er að fjarkennsla hefur verið og er veigamikill þáttur við skólann. Nemendur stunda fjarnám en koma síðan einstöku sinnum til að ljúka námslotum. 

„Í þessu felst aðlögun að starfsgreininni. Fólk getur þá unnið samhliða náminu. Það er oft að byggja upp eigin fyrirtæki eða þjónustu.”

Þó að greinin þróist og breytist og ferðafólki fjölgi, þá er ákveðinn þekkingargrunnur sem breytist hægar – en þarf að vera til staðar. Hefur ferðaþjónustan sem grein nýtt sér nægilega vel þá þekkingu sem orðið hefur til hér?

„Framan af var þessi gríðarlegi vöxtur og þá höfðu menn ekki alltaf mikinn tíma til að staldra við. Það var vertíðarstemmning, allir uppteknir að bregðast við þeim mikla fjölda sem kom. Mér finnst að í seinni tíð sé horft meira til mikilvægis menntunar, að vera með starfsfólk sem hefur þekkingu og fengið þjálfun. Greinin er að þroskast. Ég er spennt að sjá hvernig við komum út úr Covid-19, sjá hver staðan verður eftir svona fimm ár – hverju þetta hefur breytt fyrir greinina. Það var auðvitað mikið áfall að lenda í þessum aðstæðum.”

Nemendahópurinn í ferðamáladeildinni er mjög blandaður, bæði hvað aldur og starfsreynslu. Það er auðvitað dýrmætt fyrir yngra fólkið að kynnast og vinna með fólki sem hefur verið lengi í ferðaþjónustu. Menn eru ekki síst að læra af samnemendum sínum. Við ferðamáladeildina er unnið að ýmsum rannsóknum og þróunarverkefnum með fyrirtækjum í ferðaþjónustu og á alþjóðavísu. Þetta getur falið í sér gerð kennsluefnis eða þróun á einhverri þekkingu sem ætti að nýtast greininni með beinum hætti. 

Hólar eru glæsilegt setur í stórfenglegu umhverfi, einu sinni í alfaraleið þeirra sem fóru ríðandi milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar, nú þarf að fara svolítinn krók út af hringveginum til að sækja staðinn heim. Ingibjörg segir að það felist margskonar styrkur í staðsetningunni.

Útikennsla – Mynd: Árni Rúnar Hrólfsson

„Við erum með risastóra útikennslustofu hér á jaðri Tröllaskagans, með Hólaskóg og margar gönguleiðir, og höfum gefið út gönguleiðakort fyrir allan Tröllaskaga. Við nýtum þessa náttúru og auðvitað menninguna og söguna hér á Hólum í kennslunni. Mikil þróun og nýsköpun einkennir allt svæðið.”

Þú hefur lengi verið vakin og sofin í þessari starfsgrein og þessum fræðum. Hvar telur þú að helstu tækifærin liggi í íslenskri ferðaþjónustu?

„Ég held að tækifærin séu gríðarlega mörg. Eitt af því sem er mikilvægt að við gerum til að geta nýtt þau er að huga vel að innviðum, menntun og rannsóknum í greininni til að hún fái að þroskast. Svo þurfum við að gæta þess að ekki verði of fjölmennt á einstökum stöðum. Spurningin er hinsvegar hvort eða hvernig við stýrum því. Og af því að við erum stödd á Norðurlandi, þá sé ég mjög mikil tækifæri felast í uppbyggingunni á Akureyrarflugvelli. Það snýr að því að dreifa ferðafólki betur. Margir koma hingað til að upplifa náttúru og fámenni. Þess vegna er ekki gott að hrúga öllum á sama blettinn.

Covid-19 ýtti fólki í átt að meiri nýsköpun – vegna þess að menn þurftu að lifa af, finna nýjar leiðir. Hvað get ég boðið upp á annað – eitthvað nýtt? Nýsköpun er grundvallaratriði til að tryggja að við séum samkeppnishæf, að hafa eitthvað að bjóða sem er nýtt og spennandi. Það er rétt að hafa í huga að stór hluti greinarinnar eru smáfyrirtæki og einstaklingar. Áhuginn er mikill en það er takmarkaður tími og fjárhagsleg geta til að fara langt með hlutina. Erfitt er fyrir lítil fyrirtæki að ráðast í stórtæka nýsköpun.”

Jón Ósmann, ferjumaðurinn við Héraðsvötn, var sannarlega mikilvægur ferðaþjónustunni – Mynd: ÓJ

Hvernig nýtist fræðastarfið á Hólum eða í öðrum háskólastofnunum landsins frumkvöðlinum og einyrkjanum?

„Nærtækast er að benda á að frumkvöðlar og einyrkjar koma hingað í nám og nýta sér það til að taka sín fyrirtæki alveg í gegn í hagnýtum verkefnum undir leiðsögn sérfræðinga. Nemendur gera rekstraráætlanir, markaðsáætlanir, móta umhverfisstefnu og gera áætlanir um þau. Þeir vinna með raunveruleg fyrirtæki í huga og fá endurgjöf og leiðbeiningar sérfræðinga. Með því að ljúka B.A.-námi hafa margir tekið fyrirtæki sín algjörlega í gegn. Það er mjög gaman að fylgjast með þessu.”

Þetta er áhugavert. Stundum hefur verið bent á það að í háskólum landsins sé ekki verið að búa til nógu marga frumkvöðla – fólk sem býr sjálft til ný atvinnutækifæri fyrir sig og aðra. Á Hólum virðist staðan sú að þangað sækir fólk sem hefur skapað atvinnutækifæri, rutt einhverja braut – og vill gera það áfram.

„Allt nám hjá okkur miðar að þessu. Alveg frá upphafi hefur hugsunin verið sú að námið sé fyrir frumkvöðla. Við kennum vöruþróun og nýsköpun. Hugsunin er alltaf sú að láta nemendur fá verkfærin. Þegar þú útskrifast ertu með verkfærin til að gera það sem þú vilt gera.”

Hefur þú sjálf séð gagnsemi námsins birtast þarna úti í atvinnulífinu?

„Ótal sinnum. Og það er mest gefandi – að sjá árangurinn af því þegar fólki hefur tekist að umskapa sín fyrirtæki. Ég nefni dæmi: Fyrir nokkrum árum hringdi ég í konu sem var með áberandi og spennandi, sérhæfða ferðaskrifstofu, og bað hana um að flytja fyrirlestur á málþingi hjá okkur. Hún var til í það en spurði: Veistu hvar þessi hugmynd varð til? Ég sagðist ekki vita það. Þá sagðist hún hafa þróað fyrstu hugmyndirnar þegar hún gerði viðskiptaáætlun á námskeiði í Háskólanum á Hólum. Því hafði ég sjálf gleymt fyrir löngu. Maður rekst sífellt á svona dæmi. Þegar farið er á sýningar eða samkomur þar sem fólk í greininni kemur saman, þá hittir maður marga gamla nemendur, sumir starfa hjá sveitarfélögum eða hinu opinbera en langflestir eru með eigin rekstur eða eru stjórnendur hjá ferðaþjónustufyrirtækjum.”

Hjaltadalur innanverður – Mynd: ÓJ

Stundum er talað um að einn helsti veikleiki íslenskrar ferðaþjónustu sé skortur á getu til að standa undir sjálfbærum rekstri, einingarnar séu of litlar, fjölskyldur vinni myrkranna á milli. Auðvelt er að sjá styrkleikann í fjölbreytninni og fegurðina í því smáa en takmarka þessar litlu einingar okkur ekki í framþróun?

„Auðvitað er þetta bæði styrkleiki og veikleiki. Ef fólk er með sjálfstæðan rekstur, sem er efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbær, þá felst í því mikill styrkleiki. Viðskiptavinir vilja komast í beint samband við alvöru fólk, alvöru rekstraraðila, alvöru heimamenn, ekki bara ferðast með risastórum fyrirtækjum og fá matreiðslu fyrir túrista. Litlu fyrirtækin líta svo á að þau séu að taka á móti gestum. Þetta upplifa svo gestirnir sjálfir og koma aftur og aftur.”

En það verður að vera hægt að endurnýja tækin og búnaðinn, greiða laun og helst skila arði. Í þessum efnum koma veikleikar litlu fyrirtækjanna væntanlega fram.

„Já, og þetta er ástæðan fyrir því að við kennum margar rekstrargreinar. Oft leggja menn af stað með lítið eigið fé en byggja svo upp smátt og smátt en hafa fyrir vikið meiri seiglu en sumir aðrir. Í mörgum tilvikum hafa þessir smáu aðilar ekki farið fram úr sér í fjárfestingum, skulda ekki mikið. Seigluþátturinn getur verið mikilvægur. Ég heyri hjá mörgum þessum litlu fjölskyldufyrirtækjum í ferðaþjónustu að arðbærni sé ekki stóra málið heldur að geta lifað af og viðhalda sínu áhugamáli – en vera sjálfbær efnahagslega til lengri tíma litið. Í þessu liggur þolinmótt fjármagn. Það hefur breyst frá því að ég byrjaði í þessu að fólk er meira rekstrarlega þenkjandi. Þetta á við um atvinnugreina í heild.”

Við ljúkum spjallinu í gamla skólahúsinu og heimavistinni á Hólum á því að ræða umhverfismálin og kröfuna um sjálfbærni – að innan fárra ára verði þau fyrirtæki úr leik sem ekki hafa vottun um að í rekstrinum sé fylgt ítrustu kröfum um sjálfbærni og virðingu við náttúru og umhverfi. 

Horft heim að Hólum – Mynd: ÓJ

„Við höfum alveg frá upphafi hér á Hólum kennt umhverfismál og lagt áherslu á að horft sé til þeirra þátta – byrjuðum löngu áður en umhverfismál urðu heit á dagskránni. Þetta er ekki ný umræða fyrir okkur. Í mínum huga er mjög mikilvægt að fyrirtæki séu sjálfbær efnahagslega, félagslega og umhverfislega. Þá er ekki síst mikilvægt í ferðaþjónustu að öll stýring sé ábyrg, að ekki sé aðeins horft til ebitdunnar á blaði heldur samfélagsins í heild. Klárlega þarf ferðaþjónustan að gæta vel að þessum hlutum og það er hagur greinarinnar að vinna í þessum anda, það sé gagnkvæmur ávinningur að því á hverju svæði að þar sé svona rekstur. Ekki sé bara verið að taka heldur líka gefa.”

Ertu bjartsýn á framtíð ferðaþjónustunnar?

„Já, við sáum í Covid-19 að greinin er viðkvæm fyrir áföllum. Við erum að selja lúxusvöru. Það er fullt af tækifærum en greinin er viðkvæm. Menn þurfa að vera vakandi, hafa borð fyrir báru, geta mætt sveiflum. Svo eru miklar tæknibreytingar að eiga sér stað og við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sínu.”

Héraðsvötn – Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …