Svona hefur verðið á jólafluginu til Tenerife þróast

Farþegi sem bókaði fyrir fjórum vikum síðan flug til Tenerife stuttu fyrir aðfangadag borgaði töluvert minna en sá sem gerir slíkt í dag.

Áramót á Tenerife. Mynd: ÓJ

Íslendingar hafa fjölmennt til Tenerife í miklu meira mæli í ár en dæmi eru um og stjórnendur flugfélaga og ferðaskrifstofa vonast til að straumurinn liggi áfram til spænsku eyjunnar. Framboð á flugi þangað fyrir jólin verður til að mynda mun meira en áður. Gert er ráð fyrir um þrjátíu brottförum frá Keflavíkurflugvelli dagana 13. til 23. desember og tveimur frá Akureyri.

Hjá ferðaskrifstofunum er áherslan lögð á að selja fólki pakkaferðir þar sem flug, hótel og fleira er innifalið. Icelandair, Play og Niceair einblína á flugferðina sjálfa og af þróun fargjalda að dæma þá seljast sætin best í ferðirnar stuttu fyrir jól.

Hjá Icelandair hafa ódýrustu fargjöldin dagana 21. og 22. desember hækkað umtalsvert síðustu fjórar vikur eins og sjá má hér fyrir neðan og Play hefur bætt við brottför á Þorláksmessu frá síðustu verðkönnun Túrista.

Brottför Niceair þann 21. desember er uppseld en sæti í vélinni sem fer fjórum dögum fyrr kostar 73.660 kr.

Í verðsamanburðinum í þessari grein er eingöngu horft til þess hvað það kostar að fljúga til Tenerife. Er þetta gert til einföldunar þar sem úrval af heimferðum er minna. Flugið út verður því lægra en hér kemur fram ef heimferðin er bókuð á sama tíma.