„Það verða allir beittari í samkeppni“

„Ég held að það sé skilningur fyrir hendi en um leið er vanþekking á aðstæðum. Ég væri t.d. tilbúinn að greiða bóndanum meira en milliliðunum minna - til að bóndinn geti þróað og ræktað fleira. Bóndinn mætir þér í rifnum fötum en sölumaðurinn frá fyrirtækinu sem er að reyna að selja þér kjötið kemur á glænýjum rafmagnsbíl," segir veitingamaðurinn Karl Viggó Vigfússon, sem stofnaði Héðinn - Kitchen & Bar á síðasta ári með félaga sínum Elíasi Guðmundssyni.

Viggó í dyrum Hygge. Hann segast vera hálfur Dani. Mynd: ÓJ

Þeir eru æskuvinir og félagar, báðir með mikla reynslu sem veitingamenn, Elías og Karl Viggó. Nú standa þeir að umfangsmiklum rekstri vestast í Vesturbænum, í gamla Héðinshúsinu við Seljaveg. Veitingastaður með sæti fyrir 120 manns ber nafn gömlu vélsmiðjunnar sem þarna var til húsa, Héðinn - Kitchen & Bar, og jafnframt reka þeir kaffihús undir því notalega nafni Hygge, þar sem í boði er brauð bakað á staðnum. Leigðir eru út tveir 40 manna einkasalir (eða að þeir eru sameinaðir í einn 80 manna) fyrir fundi og mannfagnaði með veitingaþjónustu. Þá tilheyrir rekstrinum að sjá um morgunverð fyrir gesti Center-hótelsins Granda í húsinu. Það er því í mörg horn að líta. Um 55 standa vaktir stóran hluta sólarhringsins, þar af sex kokkar og jafnmargir nemar, tveir baka fyrir Hygge. Þegar staðið er í svona viðamiklum rekstri  er auðvitað gott að búa að mikilli reynslu. Elías er stofnandi Gló-veitingastaða og var framkvæmdastjóri þeirra um árabil. Karl Viggó er lærður bakari og kondítor, stofnandi og framkvæmdastjóri Blackbox og kom einnig að stofnun Omnom-súkkulaðis og Skúbb-ísgerðar. Yfirkokkur á Héðni er Sindri Guðbrandur Sigurðsson. 

Héðinn við Seljaveg - Mynd: ÓJ

Það blæs hressilega í Vesturbænum þennan svala októbermorgun þegar Túristi opnar dyrnar að þessum glæsilega veitingastað að hitta Viggó, eins og hann er jafnan kallaður. Viggó er framkvæmdastjóri rekstrarins en Elías stjórnarformaður. Mikill erill er í veitingasalnum. Gestir Center-hótelsins að ljúka morgunverði. Elías birtist og kastar á okkur kveðju. Túristi stillir þeim félögum upp við barinn og smellir af.

Elías og Viggó við barinn - Mynd: ÓJ

Við Viggó setjumst síðan með kaffibollana og tölum um hvernig gengið hefur frá því opnað var í faraldrinum, á þjóðhátíðardaginn, 17. júní í fyrra. Þá voru það íslenskir gestir sem mættu til að njóta matar og drykkjar á þessum nýja stað - og enn er það heimafólkið sem er mest áberandi í gestahópnum. 

Skráðu þig inn til að lesa

Þessi grein er aðeins aðgengileg áskrifendum. Smelltu hér til að kanna áskriftarleiðir.