Samfélagsmiðlar

Vill samstarf um að jafna straum ferðafólks um landið

„Horfum á það hvernig Ísland gæti þróast sem áfangastaður ef þrjár gáttir væru inn í landið," segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, sem vann að því að fá þýska flugfélagið Condor til að fljúga til Egilsstaða og Akureyrar næsta sumar. Hún segir í allra þágu að ferðaþjónustan vaxi og dafni á kaldari svæðum landsins og hvetur til samstarfs um það.

Jóna Árný Þórðardóttir

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar

Austfirðingar og Norðlendingar í ferðaþjónustu búa sig nú undir komu þýska Condor-flugfélagsins, sem hefur áætlunarflug milli Frankfurt og tveggja meginflugvalla landsbyggðarinnar, á Egilsstöðum og Akureyri, á komandi vori. Flogið verður á þriðjudögum til Egilsstaða og á laugardögum til Akureyrar frá maí til októberloka.

Egilsstaðaflugvöllur – Mynd: ÓJ

Að baki liggur mikil vinna Austurbrúar og Markaðsskrifstofu Norðurlands, Isavia og Íslandsstofu, í samvinnu við ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir og ferðaþjónustuaðila hér heima, við að laða að erlend flugfélög og skapa forsendur fyrir því að erlent ferðafólk geti sett það í forgang að ferðast um austan- og norðanvert landið en þurfi ekki að byrja á suðvesturhorninu – í Keflavík.

Einn af þeim sem kom að undirbúningnum var Þráinn Lárusson, hótelhaldari og veitingamaður á Héraði, sem vill raunar hætta markaðssetningu á Íslandi sem heild en skipta landinu í tvennt í sölustarfinu, tala um Norður-Ísland og Suður-Ísland. Norður-Ísland næði þá yfir Austfirði, frá Djúpavogi að Vopnafirði, Norðurland og Vestfirði. Þetta eru áhugaverðar hugmyndir enda ljóst að mistekist hefur að dreifa ferðafólki nægilega vel um landið.

Auðvitað ræður hver sinni för en augljóslega er Suðurlandi gefið mikið forskot með nálægð og góðum samgöngum við Keflavíkurflugvöll og Reykjavík. Þá hafa verið markvisst byggðir upp ferðamannaseglar á sunnanverðu landinu með markaðsstarfi opinberra aðila og einkageirans, seglar sem síðan selja sig sjálfir á öld grammsins. Fyrir nokkrum áratugum var Mývatn einn helsti segullinn á erlent ferðafólk, en kemst nú varla á blað, eins og Þráinn nefndi við Túrista i sumar. 

Herðubreið í fjarska. Mynduð frá vinsælum áningarstað við þjóðveginn – Mynd: ÓJ

Meðal þeirra sem hafa verið í forystu fyrir því að breyta ferðalandslaginu – hefja nýja sókn á landsbyggðinni – er Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, sem gegnir lykilhlutverki á vettvangi stjórnsýslu og markaðssetningar og á almennt að stuðla að jákvæðri þróun menntunar, menningar og atvinnulífs á Austurlandi. Jóna Árný átti stóran þátt í því að laða að Condor-flugfélagið, sem er þriðja stærsta flugfélag Þýskalands. Árlega flytur félagið um níu milljónir farþega. Höfuðstöðvarnar eru í Frankfurt.

„Við á Austurlandi ákváðum að setja fókusinn á Þýskalandsmarkað. Ástæðan var einfaldlega sú að það er markaður sem við þekkjum vel. Þýskir ferðamenn dvelja almennt lengur en aðrir og eru sjálfstæðir á sínum ferðalögum, skoða hlutina vel fyrirfram, skipuleggja ferðir sínar vel. Við teljum okkur hafa margt af því sem þýski markaðurinn sækist eftir. Þýski ferðamaðurinn vill vera frjáls í að fara á milli staða, njóta náttúrunnar, heimsækja samfélög og kynnast fólki. Við getum boðið upp á þetta.”

Við Lagarfljót – Mynd: ÓJ

Túristi situr með Jónu Árnýju á kaffihúsi í Reykjavík til að fræðast um það hvernig það kom til að eitt stærsta flugfélag Þýskalands ákveður að fljúga einu sinni í viku til Egilsstaða og jafn oft til Akureyrar, og hverjar væntingar fólks eru fyrir austan. Það er ekki nóg með að þýskir ferðamenn komist beint austur heldur fá Austfirðingar nú kærkomið tækifæri til að fljúga beint til útlanda næsta sumar. 

„Við byrjuðum fyrir ári í miðjum heimsfaraldri að dýpka tengslanet okkar og reyna að skilja hvernig virðiskeðjan í ferðaþjónustunni á þessum markaði virkar. Með góðum samstarfsaðilum í okkar baklandi, eins og Þráni Lárussyni og öðrum sem þekkja markaðinn vel, reyndum við að draga saman á hverju þýsku ferðaskrifstofurnar hafa áhuga. Hvað þarf að vera til staðar – hvaða forsendur? Svo notuðum við veturinn til að æfa orðræðuna, vitandi að við þyrftum að fá áheyrn. Að koma á millilandaflugi er samspil flugfélags og ferðaskrifstofanna sem koma til með að nýta flugið. Þær spyrja strax: Hvernig komumst við á svæðið? Margar ferðaskrifstofurnar höfðu mikinn áhuga á vöruþróun og sáu tækifæri í fjölgun gátta inn í landið – að hægt væri að fljúga til eins staðar og burt frá öðrum, fara hringinn eða dvelja aðeins í einum landshluta.

Regnbogagatan á Seyðisfirði er vinsæl á InstagramMynd: Jessica Auer

Eftir þennan undirbúning fórum við Hlynur Sigurðsson, ráðgjafi í Nature Direct-verkefninu (og fyrrverandi framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Isavia), í heimsókn til Þýskalands síðastliðið vor. Hlynur kynnti flugvellina en ég áfangastaðina. Við höfðum áður valið þau flugfélög og aðra sem við vildum ræða við og höfðum tilbúin svör við líklegum spurningum. Í þetta fór heil vika. Við byrjuðum í Hamborg, fórum síðan til Düsseldorf, Bonn, Frankfurt, München og enduðum í Berlín, þar sem þurfti að upplýsa sendiráð okkar og aðra um það sem væri verið að vinna að. Í þessum samtölum var einn meginþráðurinn sú staðreynd að þýski ferðamaðurinn kemur gjarnan endurtekið til Íslands. Fyrir Covid-19 komu um 130 þúsund þýskir ferðamenn til Íslands. Af þeim voru um 35 þúsund að koma í annað, þriðja eða fjórða skipti. Og af þessum 130 þúsundum, sem voru spurðir í könnunum, voru 110 þúsund áhugasamir um að koma aftur. Þegar þetta er talið saman sést að um risastóran hóp er að ræða. Þessi ferð staðfesti það sem við höfðum séð í rannsóknarvinnu okkar að vilji var til að búa til nýja vöru, að vilji var til að fá nýjar gáttir inn í landið. Eftir þessa Þýskalandsferð hófst vinna við að tengja saman flugfélög og ferðaskrifstofur sem við höfðum rætt við.”

Vopnafjörður Mynd: Jessica Auer

Þið ræddum við nokkur flugfélög. Sýndu þau öll einhvern áhuga?

„Já, það var töluvert mikill áhugi. Það kom í ljós sem við töldum okkur vita fyrirfram að flugfélögin voru að leita að nýjum áfangastöðum. Mikil röskun varð með Covid-19 og ferðamynstrið í Evrópu var að breytast. Vilji var til að færa farþegaflutninga á styttri flugleiðum inn í lestarkerfið en við það losna flugvélar sem mögulega má nýta til að fljúga á nýja, fjarlæga áfangastaði. Við reyndum að stilla þessu þannig upp að áhætta flugfélaganna yrði sem minnst. Liður í því er að hefja flugið í sumarbyrjun þegar umferðin er mest og teygja sig síðan inn í haustið. Á næturna eru flugvellir í Evrópu lokaðir, yfirleitt frá miðnætti til fimm eða sex að morgni. Áætlun Condor miðast við að flugvélarnar frá Egilsstöðum og Akureyri lendi í Frankfurt klukkan 05.10, rétt eftir að völlurinn er opnaður. Vélarnar eru s.s. á lofti frá Íslandi á tíma sem annars væri ekki hægt að nota þær.”

Þið vonist þá til að áætlunarflug Condor næsta sumar byggi upp eftirvæntingu og þá hugsanlega lengist ferðatímabilið inn á veturinn?

„Já, það er mjög góð byrjun að fá flug frá miðjum maí og út október. Ákvörðun um að félagið ætli strax frá upphafi að fljúga bæði til Egilsstaða og Akureyrar kemur til vegna umræðu um mögulegar nýjar vörur í Íslandsferðum – að þú getir bara ferðast á norður- eða austurhluta landsins, komið inn á öðrum vellinum en farið burt af hinum, ferðast í hóp eða á eigin vegum.”

Flugvél Condor á erlendum flugvelli

Af hverju Condor en ekki einhverjir aðrir?

„Condor stökk á vagninn. Fyrstur kemur, fyrstur fær. Helsti styrkleiki þeirra hefur falist í samstarfi við ferðaskrifstofur og þau voru fljótari en aðrir að kveikja á því að við værum komin með tengsl við ferðaskrifstofur. Condor hefur innviði til að takast á við það verkefni að fara á nýja áfangastaði en það hefði getað orðið meira mál fyrir aðra. Þau líta á sig sem orlofsflugfélag Þýskalands, félag sem flytur fólk í frí. En svo snýst svona alltaf um fólk. Hittir þú á rétta fólkið? Við náðum vel saman.”

Undirbúningur vegna komu Condor stendur yfir en framhaldið ræðst auðvitað af viðtökum á markaði. Freistar beint flug til Egilsstaða og Akureyrar frá Frankfurt?  

„Nú kemur í ljós hver samsetningin verður í þessum fyrstu vélum næsta sumar. Þýskar ferðaskrifstofur vinna venjulega mjög langt fram í tímann, t.d. í samanburði við breskar ferðaskrifstofur sem selja ferðir með miku skemmri bókunartíma. Ég vænti þess að sumarið 2023 verði gott en hef grun um að sumarið 2024 verði enn betra. Þá verður þetta komið inn í vitundina, komið inn i vöruþróunarferli á ferðaskrifstofunum.”

Þá þarf Condor að hafa þolinmæði til að byggja upp markaðinn fyrir austan og norðan. Heldur þú að sú þolinmæði sé til staðar?

„Ég merkti ekki annað af okkar samskiptum. Þau eru spennt fyrir þessu verkefni, sjá og heyra frá þýskum ferðaskrifstofum að mörg ný tækifæri felist í ferðum til þessara landshluta.”

Á Frankfurt-flugvelli. Lufthansa, stærsta flugfélag Þýskalands, fyrrverandi eigandi Condor, er þar umsvifamikið.

Frankfurt-flugvöllur hefur sérstöðu í Þýskalandi, t.d. með tengingum við aðrar borgir landsins. Frankfurt er helsti tengivöllur Þýskalands. Hægt er fljúga þaðan með 81 flugfélagi til um 300 flugvalla í 90 löndum. Lufthansa flýgur frá Frankfurt til 195 landa. Nú bætast Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur við þetta net með Frankfurt í miðjunni. Þetta felur í sér að þó að markaðsstarf Jónu Árnýjar og félaga snúist um að laða þýska ferðamenn austur á land þá skapar áætlunarflug Condor miklum fleirum sömu tækifæri.

„Þær ferðaskrifstofur sem mögulega horfa til Condor sem flugfélags til að koma farþegum til Íslands hafa ekki síst í huga gott Fly&Rail-kerfi félagsins. Þú getur gengið út af heimili þínu í Suður-Þýskalandi, farið um borð í lest sem gengur inn á flugstöðina í Frankfurt. Þetta snýst um að ferðaskrifstofur geti selt vöru sem felur í sér þann möguleika að fólk safnist saman með þægilegum hætti á einum punkti til að hefja langferð. Frankfurt hentar vel í þetta.”

Uppgröfturinn í Stöðvarfirði – Mynd: ÓJ

Tíminn líður hratt. Nú er október. Hvað er framundan á næstu vikum og mánuðum?

„Nú fer í hönd markaðsvinna ýmiskonar. Við þurfum líka að kynna heimafólki þá möguleika  sem flugið skapar. Hugsa verður hvernig við getum nýtt þetta tækifæri, við íbúarnir fyrir austan. Þetta er bylting fyrir okkur. Ég tek starfsmannafélag Austurbrúar sem dæmi. Við höfum safnað fyrir kynnisferð til Ítalíu. Með tilkomu Condor var ekki spurning hvernig við færum þangað. Við förum upp í flugvél á Egilsstöðum um kvöldmatarleytið, fljúgum til Frankfurt og verðum komin til Ítalíu upp úr hádegi. Og svo þegar við snúum til baka verðum við komin heim sama dag fyrir miðnætti.

Ég neita því ekki að mér þótti gaman að fara inn í bókunarkerfi Condor og sjá þar Egilsstaðaflugvöll.”

Það er óhætt að samgleðjast Austfirðingum vegna þessara nýju tækifæra. Þar sem ekkert beint flug er á milli Egilsstaða og Keflavíkurflugvallar er auðvitað eilíft óhagræði af því að þurfa að fljúga fyrst til Reykjavíkur og koma sér svo þaðan á Kelavíkurflugvöll. En stóra málið er að með flugi Condor næsta sumar takist að koma flugvöllunum á Egilsstöðum og Akureyri varanlega á heimskort ferðamannsins en ekki hefur tekist að skapa samfellu í slíku flugi.

Fáskrúðsfjörður – Mynd: ÓJ

Í viðtali við Túrista í sumar fagnaði Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Niceair, áformum Condor. „Því fleiri sem koma því þekktari verður áfangastaðurinn. Við fögnum allri viðbót,” sagði Akureyringurinn brattur og vonast sjálfur auðvitað til að Niceair hefji Þýskalandsflug næsta sumar. Þorvaldur Lúðvík ræddi hinsvegar líka hversu illa Akureyringar væru staddir í hótelmálum. „Ég segi að það sé bráðaaðgerð að byggja eitt 200 herbergja þriggja stjörnu hótel og eitt 100 herbergja fjögurra stjörnu hótel.” Það er nú svo merkilegt að austur á Héraði og á nærliggjandi fjörðum er ástandið skárra en í höfuðstað Norðurlands en duga þau hótel og gistihús sem þar eru til að taka á móti aukningunni sem væntanlega fylgir Condor-fluginu – og eru nægir afþreyingamöguleikar á svæðinu?

„Það er ekkert launungamál að eftirspurnin hefur verið á stuttum tíma yfir háönnina á sumrin. Okkar vinna núna er að stuðla að meiri dreifingu yfir lengri tíma. Um leið köllum við eftir því að ferðaþjónustan á landsvísu horfi til þess að byggja upp á fleiri svæðum. Austurland verður heilsárs áfangastaður. Við byrjum á maí til október 2023. Vonandi getur tímabilið byrjað í mars 2024 og staðið fram undir jól. Þetta verður krefjandi en við erum ekki hrædd að takast á við það. Nú fer sölutímabilið í Þýskalandi að hefjast fyrir alvöru og við ættum að sjá upp úr áramótum hvert útlitið er fyrir næsta sumar. ”

Erlendir hjólakappar erfiða á leið upp úr Jökuldal – Mynd: ÓJ

Ekki hallið þið ykkur aftur þó að Condor fljúgi næsta sumar. Hvað tekur við í því starfi að markaðssetja flugvellina úti á landi?

„Þetta er bara áfangi á langri vegferð. Vinnan heldur áfram. Við erum að ræða við fleiri flugfélög og ferðaskrifstofur. Starfið í þessum fasa með Condor snýst um að hlúa að samstarfinu milli flugfélagsins og ferðaskrifstofanna, tryggja að allir séu á sömu blaðsíðunni, miðla upplýsingum og tala við okkar heimafólk. Við ætlum að halda áfram að vinna á þýska markaðnum. Í verkefninu um Áfangastaðinn Austurland lögðum við mikið upp úr því að fólk sem þangað kæmi væru gestir okkar. Út frá samfélagslegri þróun og samspili við ferðaþjónustuna sem atvinnugrein henta þýskir ferðamenn okkur vel. Þeir eru sjálfstæðir og mjög áhugasamir um menningu okkar og sögu. Við kunnum að meta þetta. Við viljum vera meira en eitthver reitur á óskalista sem hakað er í. Almennt erum við skrafhreifin Íslendingar svo ég held að þetta sé draumasamband.”

Gangi vel hjá Condor er auðvitað líklegt að fleiri flugfélög komi í kjölfarið.

„Horfum á það hvernig Ísland gæti þróast sem áfangastaður ef þrjár gáttir væru inn í landið. Þetta er stór eyja. Ef þú varpar Íslandi yfir kort af Mið-Evrópukorti sést hversu stórt það er. Því er ekki óeðlilegt að við fjölgum gáttum til að ferðaþjónustan um allt landið geti blómstrað.”

Suðurland er þéttsetið af ferðafólki á meðan ferðaþjónustufólk fyrir vestan, norðan og austan grætur hversu lítill hluti straumsins liggur um þeirra lendur. 

„Það er auðvitað erfitt hversu mikið bilið breikkaði. Ákveðin svæði voru ofboðslega heit á meðan önnur voru botnfrosin. Við erum að kalla eftir samstarfi um að reyna að jafna þetta. Ég tel að það sé í allra þágu að ferðaþjónusta á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum vaxi og dafni – að meira jafnvægi náist. Það styrkir Ísland í heildina.”

Upplýsingaskilti við Breiðdalsvík – Mynd: ÓJ

Svo þarf að byggja upp innviðina fyrir austan ef ferðamannastraumurinn þyngist. Vegir eru enn slæmir á nokkrum svæðum og sannarlega má bæta hreinlætisaðstöðu og aðbúnað ferðafólks. 

„Það er nauðsynlegt að innviðir verði byggðir upp samhliða, bæði innan sjálfrar atvinnugreinarinnar á svæðinu og svo almennt. Auðvitað er stöðugt unnið að þessu og ekki má slá slöku við.

Við erum ellefu þúsund manna samfélag á Austurlandi, frá Djúpavogi og norður á Vopnafjörð. Þetta fólk vill eiga aðgang að afþreyingu, veitingastöðum, kaffihúsum , menningarviðburðum, líka samgöngum til og frá landinu, en þessi ellefu þúsund eru ekki nógu stór hópur til að skapa nægilega eftirspurn svo þetta verði sjálfbært. Hvernig búum við þá til meiri eftirspurn? Það er með því að fá fleiri til okkar – fá til okkar gesti.

Þeir gestir sem koma til með að sækja okkur heim eru þátttakendur í því að búa til það samfélag sem heimafólkið sækist eftir.” 

Jóna Árný – Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …