Virgin hættir flugi til Hong Kong

Tilkynnt var í dag um að breska flugfélagið Virgin Atlantic ætli að hætta flugi til Hong Kong í mars á næsta ári og loka söluskrifstofu sinni þar eystra. Þar með lýkur 30 ára sögu flugs Virgin Atlantic til þessarar fyrrum nýlendu og sjálfsstjórnarsvæðis innan breska heimsveldisins. Ákvörðunin er skýrð með því að benda á afleiðingar árásarstríðs Rússa í Úkraínu.

Stofnandi Virgin Atlantic, Richard Branson, segir að allar þær flækjur sem hafi fylgt því að rússnesk lofthelgi lokaðist vegna stríðsins stuðli að því að ákvörðun sé tekin um að hætta flugi til Hong Kong 23. mars 2023, samkvæmt frétt Reuters-fréttaveitunnar. Raunar hefur flug legið niðri frá því í desember á síðasta ári vegna harðra Covid-19-reglna í Kína og Hong Kong.

Virgin Atlantic eins og mörg önnur flugfélög hættu flugi um rússneska lofthelgi þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Bloomberg-fréttaveitan hefur heimildir fyrir því að ákvörðun forráðamanna Virgin Atlantic um að gefa flug til Hong Kong upp á bátinn hafi áhrif á framtíð 46 starfsmanna félagsins, bæði skrifstofufólk og áhafnir. Bent er á að félagið hefði staðið frammi fyrir því að ef flogin yrði lengri leið milli Heathrow og Hong Kong tæki flugferðin einni klukkustund lengri tíma en hún gerði árið 2019. Virgin Atlantic hafði fyrir heimsfaraldur einnig haldið uppi flugi til Hong Kong frá Melbourne og Sidney í Ástralíu.

Forráðamenn Virgin Atlantic harma þessa niðurstöðu og áhrif hennar á trygga viðskiptavini.