Áfram gríðarlegt tap

Farþegar á leið í þotu SAS á Kaupmannahafnarflugvelli. MYND: KS

Reikningsárið hjá skandinavíska flugfélaginu SAS hefst í nóvember og lýkur í október árið eftir. Og nú í morgunsárið birtu stjórnendur félagsins uppgjör fyrir nýliðið reikningsárið og niðurstaðan er tap upp á nærri 8 milljarða sænskra króna. Sú upphæð jafngildir 108 milljörðum íslenskra króna.

Tapið er sambærilegt tap og árin tvö á undan en Covid heimsfaraldurinn hafði skiljanlega mikil áhrif á reksturinn á þeim tíma. Tap SAS undanfarin þrjú ár nemur um 23 milljörðum sænskra króna eða 310 milljörðum íslenskra króna en hluta af tapinu má rekja til langra verkfalla flugmanna SAS. Vorið 2019 lögðu þeir niður vinnu í eina viku og nú í sumar fór helmingur flugmanna í 15 daga langt verkfall.

Óhætt er að segja að stjórnendur SAS rói lífróður þessi misserin því í sumar fengu þeir heimild til gjaldþrotaverndar (Chapter 11) í Bandaríkjunum. Hluti af því ferli er regluleg upplýsingagjöf um stöðuna og útgáfa afkomuspár. Og samkvæmt þeirri nýjustu stefnir í að tap SAS á yfirstandandi reikningsári, nóvember 2022 til október 2023, verði í það minnsta helmingur af tapinu á nýliðnu reikningsári.

SAS hefur lengi haldið úti tíðum ferðum hingað til lands frá Ósló og Kaupmannahöfn og stöku sinnum boðið upp á Íslandsflug frá Stokkhólmi yfir hásumarið.