Áfram himinhá verðbólga í Bretlandi

Verðlag í Bretlandi heldur áfram að hækka en íslensk ferðaþjónusta á mikið undir því að Bretar fjölmenni hingað næstu mánuði.

MYND: LONDON HEATHROW

Nú er að renna upp sá árstími þegar Bretar streyma til Íslands en í byrjun hvers árs eru þeir vanalega langfjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi. Í janúar og febrúar árið 2020, stuttu fyrir heimsfaraldur, flugu héðan 71 þúsund Bretar en til samanburðar voru bandarísku túristarnir helmingi færri.

Þá var efnahagsástandið í Bretlandi mun betra en það er í dag en samkvæmt tölum sem breska hagstofan birti nú í morgunsárið þá jókst verðbólga þar í landi um 11,1 prósent í október. Þetta er meiri vöxtur en spáð hafði verið. Aukningin skrifast helst á hærra orku- og matvælaverð samkvæmt því sem segir í tilkynningu bresku hagstofunnar.

Þar kemur fram að verð á mat og óáfengum drykkjum hefur hækkað um 16,4 prósent í ár og leita þarf aftur til áttunda áratugarins til að finna álíka hækkanir innan ársins. Kostnaður við rekstur breskra heimila hefur aukist verulega í ár eða um 11,7 prósent.

Hvaða áhrif þessar verðlagshækkanir heima fyrir hafa á ferðalög Breta til Íslands kemur í ljós á næstu mánuðum. Í október sl. flugu héðan 24 þúsund breskir farþegar sem er aukning um þrjú þúsund manns frá sama mánuði árið 2019 og á pari við október 2018. Ennþá er því ekki að sjá á tölfræðinni að versnandi efnahagsástand dragi úr ferðum Breta hingað til lands.