Bláa lónið á hlutabréfamarkað

Bláa lónið er einn þekktasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi. MYND: BLÁA LÓNIÐ

Eitt allra stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, Bláa lónið, verður skráð á hlutabréfamarkað á næsta ári að öllu óbreyttu. Þetta herma heimildir Túrista en seinnipartinn í dag koma hluthafar fyrirtækisins saman og er uppi hávær orðrómur um að þar verði skráning í Kauphöll til umræðu.

Árlega heimsækja Bláa lónið á aðra milljón gesta en við lónið sjálft hefur verið byggð upp fjölþætt þjónusta síðustu ár, þar eru til að mynda tvö hótel, veitingastaðir og verslanir. Rekstur fyrirtækisins skilaði jákvæðri afkomu í áratug fram að heimsfaraldri en var rekið með tapi árin 2020 og 2021 þegar lokað þurfti í hálft ár. Veltan í fyrra nam um 7 milljörðum kr. en var 17 milljarðar kr. árið 2019.

Ef af áformum um skráningu Bláa lónsins verður þá stefnir í að ferðaþjónustufyrirtækjunum í Kauphöllinni fjölgi töluvert á næstu misserum. Eigendur Íslandshótela og Arctic Adventures horfa nefnilega einnig til skráningar á hlutabréfamarkað.

Í dag eru Icelandair og Play einu ferðaþjónstufyrirtækin í Kauphöllinni en ljóst má vera að batnandi staða ferðaþjónustunnar hefur jákvæð áhrif á fjölda fyrirtækja sem eru á hlutabréfamarkaði. Þetta hefur komið skýrt fram í uppgjörum banka, fasteignafélaga og verslunar- og iðnaðarfyrirtækja að undanförnu.

Viðbót: Bláa lónið sendi út tilkynningu seinni partinn í dag þar sem segir að stefnt sé að skráningu á næsta ári en endanleg ákvörðun sé „háð framvindu undirbúningsvinnu og eftir því sem markaðsaðstæður leyfa.“