Borga meira. Dvelja lengur.

Flugfélög víða um heim breyta nú áætlunum sínum og bregðast við tilhneigingum á markaði eftir Covid-19 með nýjum ferðakostum. Þannig fjölgar stöðugt í hópi þeirra viðskiptamanna sem nú kjósa að lengja ferðir sínar, hverfa frá því að fara í eins dags viðskiptaferðir.

Reuters-fréttastofan segir sögu ástralsks viðskiptamanns sem býr í Sidney og þreytandi eins dags ferðum hans til Melbourne eða Brisbane, sem fólu í sér fjórar ökuferðir með leigubíl, tvær flugferðir, langan biðtíma og hættu á flugtöfum. Þessar ferðavenjur endurskoðaði Ástralinn eftir heimsfaraldur.

Vísað er til tölfræðilegra gagna úr flugheiminum sem sýna að fleiri séu á þessari leið: Bissnissfólkið fer í lengri ferðir en áður og flugfélögin hafa orðið að bregðast við því í áætlunum sínum. Þegar svo bætast við áhyggjur af umhverfisáhrifum, hækkandi verð flugmiða, fjölgun aflýsinga á flugferðum vegna skorts á starfsfólki á flugvöllum og mikil aukning í fundahaldi á netinu þá blasi við að eins dags viðskiptaferðum á enn eftir að fækka. Haft er eftir bandaríska viðskiptaferða- og ráðstefnuskipuleggjandanum CWT að netfundirnir einir hafi fækkað eins dags viðskiptaferðum innanlands um meira en fjórðung frá 2019.

Og Ástralinn áðurnefndi er sáttur mjög, segir við Reuters að hann kunni því vel að lengja ferðirnar og fá tækifæri til að hitta fleira fólk í hverri ferð og kynna sér fleiri verkefni á sínu sviði. 

Flugfélög í Bandaríkjunum hafa brugðist við þessari þróun með því að bjóða upp á fleiri flugferðir í miðri viku vegna áhuga viðskiptavina á að blanda saman viðskiptum og slökun (bleisure), sem kemur til vegna þess að fólk hefur meiri tækifæri en áður til að sinna störfum sínum í fjarvinnu. 

Sölustjóri CWT í Kyrrahafslöndum Asíu segir við Reuters að um sé að ræða varanlega breytingu sem blasi við bæði flugfélögum og hótelum. Eins dags ferðirnar víki fyrir lengri ferðum vegna þess að viðskiptavinir séu orðnir umhverfislega neðvitaðri og hugsi meira um kostnaðinn. Þetta geti leitt til þess að nýting hótelherbergja batni.

Í Ástralíu hafa viðskiptaferðir innanlands lengst vegna hækkandi flugfargjalda. Meðallengd hverrar ferðar var þrír dagar árið 2019 en á þriðja fjórðungi þessa árs var hún orðin fjórir dagar. Skýringin er einfaldlega sú að vegna þess hversu dýrt er að fljúga vill fólk nota tækifærið og dvelja lengur á áfangastað. 

Flugfélögin Qantas og Virgin í Ástralíu segja að hærri flugfargjöld hafi hingað til vegið upp tekjumissinn af fækkun viðskiptaferða. En breyttar ferðavenjur blasi við, umferð á vinsælum bissnissleiðum fari minnandi, færri ferðist fram og til baka samdægurs og flugfélögin hafi brugðist við með breytingum á flugáætlunum.