Búið að setja upp nýtt viðvörunarskilti í Reynisfjöru

Unnið er að uppsetningu skilta og viðvörunarbúnaðar í Reynisfjöru í samræmi við það sem ákveðið var á samráðsfundi stjórnvalda með landeigendum í júní.

Nýja ljósaskiltið í Reynisfjöru MYND: Facebook-síða Lilja D Alfreðsdóttur

Þegar hefur verið sett upp ljósaskilti sem varar við hættu í Reynisfjöru og er þar byggt á ölduspákerfi Vegagerðarinnar. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, segir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Á næstu dögum bætast við upplýsingaskilti og vegprestar, að sögn ráðherra, auk þess sem verið er að reisa nýtt mastur fyrir eftirlitsmyndavélar og tengja við þær rafmagn og fjarskiptabúnað.

Ferðafólk við gamla upplýsingaskiltið í Reynisfjöru í sumar – MYND: ÓJ

Ferðamálaráðherra færir öllum sem komu að þessu verkefni þakkir. Í samráðshópi voru fulltrúar landeigenda, Veðurstofu Íslands, Vegagerðarinnar, almannavarnardeildar lögreglunnar á Suðurlandi, Landsbjargar, Mýrdalshrepps og Ferðamálastofu.

Í Reynisfjöru í sumar- MYND: ÓJ