Efndir á nauðasamningi dragast enn

airportexpress
Rúta á vegum Allrahanda GL á leið frá Keflavíkurflugvelli. MYND: ALLRAHANDA

Staðfesting Héraðsdóms Reykjavíkur á nauðasamningi ferðaþjónustufyrirtækisins Allrahanda GL ehf. hefur verið kærð til Landsréttar af einum kröfuhafanum, þungaflutningafyrirtækinu ET ehf. Það félag auk Snóks ehf., móðurfélags ET, lagðist gegn staðfestingu nauðasamningsins en héraðsdómur hafnaði andmælum þeirra með úrskurði þann 10. nóvember síðastliðinn.

Búist er við niðurstöðu Landsréttar öðru hvoru megin við áramót og að því loknu ætti að liggja fyrir hvort nauðasamningurinn verður efndur eins og til stóð.

Í júní 2020 var Allrahanda GL fyrsta fyrirtækið í ferðaþjónustu til að óska eftir greiðsluskjóli í samræmi við nýsamþykkt lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar til að mæta tekjufalli af völdum Covid-19.

Fyrstu útgáfu nauðasamnings, á grundvelli laganna um greiðsluskjól, var hafnað í Landsrétti í janúar síðastliðnum. Ráðist var í nýjar nauðasamningsumleitanir á grundvelli gjaldþrotalaga og voru þær samþykktar af miklum meirihluta kröfuhafa í ágúst sl.

Ennþá er unnið að samruna Allrahanda GL og rútufyrirtækisns Reykjavik Sightseeing en líkt og Túristi greindi frá er ætlunin að móðurfélag þess síðarnefnda, PAC1501 ehf. sem er í eigu framtakssjóðs á vegum Landsbréfa, verði langstærsti hluthafinn í sameinuðu félagi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem horft er til samruna rútufyrirtækjanna tveggja því það ferli var komið langt á veg í árslok 2019 þegar upp úr viðræðum slitnaði.