Í sumar var Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, gagnrýnd af ferðaþjónustufólki vegna stuðnings hennar við hvalveiðar Íslendinga, sem stríddu gegn hagsmunum ferðaþjónustunnar – ekki síst auðvitað fyrirtækja sem bjóða ferðafólki í hvalaskoðunarferðir.

Lilja er ekki sátt við hvernig orð hennar voru túlkuð. Í viðtali sem Túristi birti í gær segir hún:
„Það rétta í því er að ég sagðist ekki sjá það í neinum tölum að hvalveiðarnar hafi haft áhrif á ferðaþjónustuna. Um leið og við sjáum að hvalveiðar ógni stöðu ferðaþjónustunnar þá breytist afstaða okkar.
En hafandi sagt þetta, þá erum við að taka áhættu með hvalveiðum.
Ef við fáum mjög erfiða umfjöllun um hvalveiðar getur hún breytt stöðu okkar mjög hratt. Það er auðvitað ljóst að efnahagslegir hagsmunir ferðaþjónustunnar vega margfalt meira en hvalveiðarnar. Þetta fyrirkomulag á hvalveiðunum er núna til endurskoðunar.”

Hvorki ferðamálaráðherra, matvælaráðherra, eða aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni, sem hugsanlega hafa efasemdir um eða eru andvígir hvalveiðum Kristjáns Loftssonar, snúast tæplega með beinum hætti gegn stefnu þriggja flokka ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Langreyðar eru í viðkvæmri stöðu og eru af mörgum taldar í útrýmingarhættu. Hvalveiðistefna Íslendinga hefur sætt gagnrýni víða á alþjóðavettvangi og er af forystufólki í ferðaþjónustunni talin spilla ímynd landsins og torvelda markaðsstarf.