Fasteignakaup á draumaeyju Íslendinga

Í grein sem birt er í bandaríska stórblaðinu The New York Times er augunum beint að fasteignamarkaðnum á Tenerife. Íslendinga er getið í kaupendahópi.

Playa Fañabé á Tenerife við sólsetur MYND: ÓJ

Fram kemur hjá The New York Times að spurn eftir fasteignum sé meiri í Las Palmas de Canaria og Santa Cruz de Tenerife, meginborgum Kanaríeyja, en í öðrum helstu borgum Spánar. Blaðið beinir athygli að átta herbergja villu í miðbæ Icod de los Vinos á norðvesturströnd Tenerife, sem margir íslenskir ferðalangar þekkja. Þetta glæsihýsi var reist snemma á 19. öld og er í svonefndum Mudéjar-stíl, þar sem gætir íslamskra áhrifa. Þetta er rúmgott þúsund fermetra húsnæði enda var þar ráðhús í eina tíð og síðar skemmtiklúbbur. Fyrir áhugasama íslenska fasteignakaupendur, sem langar að dvelja í hinu eilífa sumri á Tenerife, er rétt að nefna strax að prísinn á þessu húsi er 1,6 milljónir evra. Ódýrari kostir eru hinsvegar í boði.

La Caleta á Tenerife – MYND: ÓJ

Fyrsta tilfelli Covid-19 var greint á Kanaríeyjum í janúar 2020. Stjórnvöld tóku fast á málum en um leið botnfraus fasteignamarkaðurinn. Líf færðist síðan aftur í fasteignaviðskiptin á eyjunum undir lok ársins 2021 þegar byrjað var að aflétta ferðatakmörkunum. Þau hafa síðan verið á hraðri uppleið allt þetta ár vegna áhuga viðskiptavina frá Bretlandi, Norðurlöndunum, Mið-Evrópu – og í vaxandi mæli frá löndum í austanverðu Evrópusambandinu. Efnaðir Austur-Evrópubúar eru nýir á þessum markaði og hugsanlega í leit að öruggum fjárfestingarkostum á tímum efnhagslegrar óvissu. 

Ekki þarf að hafa mörg orð um rómað veðurlag, fagra náttúru og fjölbreytileika í menningu á Kanaríeyjum en minni framfærslukostnaður en víðast annars staðar í Evrópusambandinu skýrir ekki síst ásókn í fasteignir á eyjunum. Og sala fasteigna til útlendinga vex stöðugt á Kanaríeyjum. Mest er salan á Tenerife og Lanzarote en spurn er líka eftir eignum á Fuerteventure, Gran Canaria og á litlu eynni La Palma. 

Buenavista á norðanverðri Tenerife – MYND: ÓJ

Áður voru Bretar stórtækastir í fasteignakaupunum en það breyttist með Brexit. Nú koma flestir kaupendur frá Þýskalandi. Anton Sorokko, stofnandi og stjórnandi fasteignasölunnar Asten Realty, segir við The New York Times að „kaupendur frá Bretlandi, Belgíu, Ítalíu, Svíþjóð og Íslandi horfi gjarnan hýru auga til Tenerife en Gran Canaria heilli frekar Þjóðverja og aðra Norðurlandabúa, Frakkar kjósi Lanzarote. Þá fjölgi Pólverjum og Tékkum í kaupendahópnum, en þeir voru áður sjaldséðir.”

Teide – MYND: ÓJ