Ferðahelgi í Bandaríkjunum

Miklar annir eru á bandarískum flugvöllum og brautarstöðvum vegna þakkargjörðarhátíðarinnar sem hefst á morgun, þeirri fyrstu eftir heimsfaraldur.

Samtök bandarískra bílaeigenda (AAA) áætla að meira en 55 milljónir landsmanna ferðist akandi, með lestum eða flugi fyrir hátíðina. Búist er við að álíka margir fljúgi nú og gerðu fyrir heimsfaraldur en skortur á starfsfólki og flugvélum takmarka flutningsgetuna. Niðurstaðan er færri sæti á hærra verði. Ekki bætir úr að eldsneytisverð hefur hækkað. 

Flugfargjöld í aðdraganda þakkargjörðarhátíðarinnar vestra eru um 17 prósentum hærri en á sama tíma fyrir ári en svipuð og þau voru fyrir faraldurinn. Hinsvegar eru flugfargjöld sem bandarískir ferðamenn þurfa að greiða til að komast til útlanda um 30 prósentum hærri en árið 2019. Þetta virðist þó ekki slá á ferðaþrá Bandaríkjamanna, sem vilja bæta sér upp leiðindin sem fylgdu Covid-19.

Búist er við að umferðin í aðdraganda þakkargjörðarhátíðarinnar nái hámarki í kvöld. Hinsvegar bendir Reuters-fréttastofan á að í ljósi þess að margir geta nú stundað fjarvinnu hafi margir haldið fyrr en ella af stað í fríið.