Samfélagsmiðlar

Ferðaþjónustan þarf að laga sig að miklum breytingum í veðri og náttúrufari

Loftslagsbreytingar hafa mikil áhrif á ferðaþjónustuna, ekki síst ævintýraferðamennsku. Þetta kom fram í máli allra þeirra sem töluðu á morgunverðarfundi Loftslagsleiðtogans, sem haldinn var í samvinnu við Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands, í Veröld í gær.

Vilborg Arna Gissurardóttir, ráðgjafi og ævintýrakona

Meginstefið á fundinum var hversu víðtæk áhrif loftslagsbreytingar hafa þegar haft á náttúru og þar með vettvang ævintýraferðamennsku um allan heim. Gömul þekking dygði ekki til. Hraðar breytingar kölluðu á stöðuga endurnýjun þekkingar. En í þessum nýju og breytilegu aðstæðum felast líka fjölmörg tækifæri. 

Frummælendur, fundarstjórnendur og þátttakendur í pallborði – MYND: KRISTINN INGVARSSON

Jöklar eru að bráðna, jarðvegur skríður fram, landslag breytist, sjávarmál hækkar, eða lækkar sumstaðar, úrkoma eykst, öfgar í veðri aukast. Elín Björg Jónasdóttir, veðurfræðingur, fór yfir þetta í sínu erindi. Nú í haust hefðu þegar komið tvær veðurviðvaranir. Óvenjulegt veður miðað við árstíma brast á: Mikil úrkoma og slydda á norðanverðu landinu.

„Þegar við fáum vond veður þá eru þau meira afgerandi og óvenjulegri en við höfum vanist á síðustu áratugum. Þetta gerist svo hratt. Ég er ekki viss um að við náum að safna reynslu áður en hlutirnir breytast aftur.”

Elín Björg ræddi mikilvægi þess fyrir ferðaþjónustuna að byggt væri á reynslu, ekki síst uppi á jöklum sem breytast sífellt.

„Öfgafullt veðurfar getur breytt náttúrufari og ferðaþjónustan þarf að huga því og gera viðbragðsáætlanir. Jöklar bráðna og skilja eftir sig nýtt landslag.”

Þetta nýja landslag hefur áhrif á nærveðurlag – í hlíðum og dölum. Nýjar aðstæður skapast sem við höfum ekki þekkingu á. Reynsla sem fjallaleiðsögumenn hafa aflað á löngum tíma verður ekki eins mikils virði og hún er nú.

„Við verðum að gera kröfur um örari endurmenntun til að byggja upp nýja reynslu,” sagði Elín Björg.

„Aðlögunin sem ferðaþjónustan þarf að fara í núna felur í sér að finna út úr því hvernig bregðast eigi við þegar reynsluna vantar.”

MYND: KRISTINN INGVARSSON

„Auka verður öryggi og fagmennsku,” sagði Helga María Heiðarsdóttir, formaður Félags fjallaleiðsögumanna á Íslandi, sem lýsti þeim miklu breytingum sem hefðu orðið á jöklum landsins og starfi leiðsögumanna. Erlendir ferðamenn kæmu hingað til að njóta náttúrunnar og vaxandi straumur þeirra fæli í sér hættu á að fleiri slösuðust. Stundum myndaðist súrrelísk stemmning uppi á jökli. Fólksfjöldinn væri eins og á Laugaveginum en samt væru allir að reyna að upplifa náttúruna. Þetta væri ekki sama söluvara og áður þegar dugði að biðja fólk um að þegja og hlusta á jökulinn. Nú væri það ekki alltaf hægt vegna mannfjöldans.

Helga María sagði starf fjallaleiðsögumanna mjög mikilvægt á þessum breytingatímum. Þeir byggju yfir reynslu og gætu miðlað upplýsingum til margra í ferðum sínum.

„Náttúran er síbreytileg og það er starf okkar líka.”

Ferð á jökul undirbúin – MYND: ÓJ

Samkvæmt viðmiðum Adventure Travel Trade Association er talað um ævintýraferðamennsku ef um er að ræða tvennt af eftirfarandi: Náttúruupplifun – Líkamleg áreynsla – Menning.

Einar Torfi Finnsson, leiðsögumaður, sagði að út frá þessu þá væri rjóminn af íslenskri ferðaþjónustu ævintýraferðamennska. Hann sagði að hugtakið væri stundum skilgreint of þröngt. Ævintýraferðamennska væri ekki einhver sérviskuleg ferðaþjónusta heldur næði hún til tuga þúsunda ferðamanna hér á ári hverju.

„Það eru miklar áskoranir sem felast í loftslagsbreytingum og ævintýraferðaþjónusta verður að aðlaga sig eins og önnur ferðaþjónusta. Við þurfum líka að taka þátt í því að sporna við breytingunum. Í því felast fjölmörg tækifæri til þróunar í greininni, tækifæri fyrir nýja rekstraraðila. Það er mikilvægt að nálgast þetta af mikilli ábyrgð og auðmýkt.”

MYND: KRISTINN INGVARSSON

En hvernig ferðaþjónustu eigum við að standa fyrir í heimi mikilla loftslagsbreytinga? Einar Torfi nefndi kolefnishlutleysi í rekstri, að flutningar yrðu sem minnstir. Hann talaði um hægan ferðamáta, göngu- og hjólaferðir – og að sökkva sér ofan í menningu og aðstæður, hugleiða eða prjóna í viku á einum og sama staðnum. Þetta kæmi fyrst í huga hans. Margt fleira kæmi auðvitað til greina.

„Það eru fjölmörg tækifæri til að breyta ferðaþjónustunni. Við þurfum raunverulega að horfa á það núna að neysla okkar í ferðaþjónustu minnki og að hún sé ábyrgari. Við þurfum að horfa á aðföng og byggingarnar, einbeita okkur að því sem er rólegt, ekki stressað. Fyrirgefið mér:

Sex daga hringferð um Ísland er eitthvað sem á endanum þarf að heyra sögunni til.“

Ferðamenn á jökulsporði – MYND: ÓJ

Í pallborðsumræðum sem fylgdu erindum lagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, áherslu á mikilvægi samvinnu allra til að við næðum markmiðum okkar í loftlagsmálum.

„Eitt af því sem maður hefur komist að eftir að hafa unnið innan stjórnkerfisins og utan þess er hversu góðir Íslendingar eru í því að sjá fyrir sér hvert þeir vilji fara en ótrúlega lélegir í að setja sér aðgerðaáætlun um það hvernig við ætlum að komast þangað. Þetta á eiginlega við um alla opinbera stefnumörkun.”

Alltof oft væri hver að huga að sínu en minna væri gert af því að samræma áætlanir, sagði Jóhannes Þór.

„Stjórnmálamenn á Íslandi eru hreinlega ekki búnir að viðurkenna gagnvart sjálfum sér að þetta verkefni mun kosta miklu meiri peninga heldur en fólk sér fyrir núna. Hér þarf að hugsa stórt, fara í stórar aðgerðir í mikilli samvinnu.” 

Bráðnandi skriðjökull – MYND:ÓJ
Nýtt efni

Umhverfisstofnun er farin að fikra sig áfram með álagsstýringu á ferðamannastöðum. „Við erum að setja af stað pöntunarkerfi í Landmannalaugum i sumar,“ sagði Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðsstjóri sviðs náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun, á ársfundi náttúruverndarnefnda nýverið. „Þetta er mjög einföld aðferð,“ sagði Inga Dóra: Ef þú kemur akandi þarftu að bóka stæði og borga fyrir það. …

Stjórnendur rafbílaframleiðandans Tesla leita nú leiða til að draga úr kostnaði og horfa þeir til þess að segja upp 14 þúsund starfsmönnum eða um 10 prósent af vinnuaflinu. Þetta kemur fram í tölvupósti sem forstjóri félagsins, Elon Musk, sendi til starfsfólks samkvæmt frétt sem fagritið Electrek birti í morgun. „Ég hata ekkert meira en þetta …

Stefnt er að því að á hótelinu verði veitingastaður, ráðstefnu- og veislusalur ásamt heilsulind. Síðan er ætlunin að stækka Skógarböðin og tengja þau hótelinu.  Samkvæmt fréttatilkynningu er um að ræða fimm milljarða króna fjárfestingu. Áætlað er að hótelið verði opnað eftir tvö ár, vorið 2026.  „Þetta er virkilega spennandi verkefni sem við hjá Íslandshótelum hlökkum …

Hver hlutur í Icelandair kostaði fyrir opnun Kauphallarinnar í morgun 1 krónu og fjóra aura. Verðið hefur ekki verið svona lágt síðan í nóvember árið 2020 en þá hafði félagið nýverið efnt til hlutafjárútboðs þar sem sölugengið var 1 króna á hlut. Í dag er markaðsvirði Icelandair 43 milljarðar króna og hefur það lækkað um …

Stafræna byltingin gerði fjarvinnu auðveldari og heimsfaraldurinn festi það vinnufyrirkomulag í sessi. Stór og vaxandi hópur fólks nýtir sér þá möguleika sem felast í þessu frelsi - að geta unnið verk sín eiginlega hvar sem er í heiminum, skila unnum verkum af sér án þess að mæta á tiltekinn stað á tilgreindum tíma. Áætlað er …

Sigurð Örn Ágústsson, fyrrum forstjóri Bláfugls, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Play. Um er að ræða nýtt svið innan flugfélagsins og verður Sigurður Örn hluti af framkvæmdastjórn flugfélagsins sem nú telur átta manns, einum fleiri en í yfirstjórn Icelandair. Í tilkynningu segir að Sigurður Örn muni hafa það hlutverk að leiða frekari þróun þvert …

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …