Fjöldatakmarkanir á Mallorca

Yfirvöld á spænsku Miðjarðarhafseynni Mallorca íhuga að setja takmörk á framboð gistirýma til að takast á við troðslutúrisma. Talað er um að miða við 430 þúsund rúm á eynni allri. Þungur straumur ferðafólks hefur legið til Mallorca eftir að heimsfaraldrinum lauk.

MYND: Fomento del Tourismo de Mallorca

„Við viljum sjá verðmætari en umfangsminni ferðaþjónustu,“ sagði Catalina Cladera, forseti sjálfsstjórnareyjunnar Mallorca, á dögunum þegar hann ræddi hugmyndir um að hemja troðningstúrismann með takmörkunum á fjölda hótelrúma.

Eftir að heimsfaraldrinum lauk fengu þau á Mallorca fleiri gesti en nokkru sinni áður. Öll hótelrými fylltust og sömuleiðis leiguíbúðir. „Þá upphófst að nýju umræðan um að ferðamenn væru alltof margir. En það átti í raun aðeins við um suma staði á ákveðnum tímum,“ segir Catalina Cladera.

Yfirvöld hafa síðan staðfest að verið sé að endurskoða ferðamálastefnuna á Mallorca – með það fyrir augum að fækka heimsóknum ferðamanna. Það verður sett þak á rúmafjölda, talað er um 430 þúsund rúm, og settar reglur um markaðssetningu. Þá verður eftirlit aukið til að hindra ólöglega leigustarfsemi.

Yfirvöld á öllum Balerísku eyjunum, Mallorca, Ibiza, Formentera og Minorca, hafa á þessu ári kynnt til sögunnar harðari reglur til að hemja mikinn mannsöfnuð og draga úr ólátum. Sérstaklega hefur spjótum verið beint að fylliröftum sem safnast saman á einstaka stöðum og hafa lengi verið til ama. Takmörk hafa verið sett á sölu áfengis á nokkrum svæðum, eins og á Magaluf, El Arenal og Ibiza, þar sem gjarnan er mikil drykkja. Nú hafa víða verið sett þau mörk að gestir megi aðeins kaupa þrjá drykki á kvöldverðartíma og jafn marga í hádeginu. Ef fólk vill meira áfengi þarf það að nálgast drykkina annars staðar.

Þá hefur verið lagt bann við „happy hours,“ „tveir fyrir einn“-tilboðum, sölu áfengis í verslunum frá hálftíu á kvöldin til klukkan átta að morgni, svo fátt sé nefnt af margskonar ráðstöfunum til að hemja truflanir af fjöldasamkomum á Balerísku eyjunum.

Gestum á hinni vinsælu Playa de Palma var í sumar meinuð innganga á veitingahús þar ef þeir voru klæddir fótboltatreyjum. Eigendur veitingahúsa komu saman í því skyni að setja reglur um klæðaburð – ef það mætti verða til að draga úr ósæmilegri hegðun gesta.

Yfirvöld á Ibiza vilja nú allt til vinna að breyta orðspori eyjarinnar sem vettvangs skemmtanahalds. Þau vilja nú stefna að sjálfbærri ferðamennsku og vekja athygli á fjölda vistvænna og heilsubætandi gistimöguleika á eynni.