Fleiri ferðir til Suður-Evrópu

Morgunn við Piazza del Popolo í Róm. MYND: ÓJ

Meðal nýjunga hjá Icelandair í sumar voru áætlunarferðir til Rómar og Nice og tóku Íslendingar flugi til þessara suðrænu borga vel að því segir í tilkynningu. Af þeim sökum verða ferðirnar fleiri á næsta ári og fyrsta brottför til Rómar á dagskrá í lok mars og flugið til Nice hefst þann 8. júní.

„Við kynntum þessa tvo nýju áfangastaði á þessu ári og viðtökurnar voru strax afar góðar. Því töldum við fulla ástæðu til að lengja ferðatímabilið og gefa Íslendingum tækifæri til að lengja vorið,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.

Ekkert annað flugfélag býður upp á flug héðan til Nice en farþegar á Keflavíkurflugvelli geta valið á milli ferða Icelandair og Wizz Air ef ferðinni er heitið til Rómar. Ferðaþjónusta í þeirri síðarnefndu á við töluverðar áskoranir að etja eins og Túristi fór yfir nýverið.

Áhersla Icelandair á flug til Suður-Evrópu hefur aukist umtalsvert eftir heimsfaraldur enda fljúga þotur félagsins orðið miklu oftar en áður til Tenerife og eins eru Alicante og Las Palmas nú hluti af fastri dagskrá félagsins. Samhliða þessu hefur rekstur ferðaskrifstofunnar Vita verið færður inn á skrifstofur Icelandair.