Gæti rafmagnsleysi spillt fríinu?

Bretar hafa áhyggjur af afleiðingum orkukreppunnar í vetur. Á mestu álagstímum gæti þurft að skammta rafmagn. Það er farið að bera á fyrirspurnum um hvort það sé óhætt fyrir ferðamanninn að heimsækja London á þessum óvissutímum.

london Jethro Stebbings

Það eru þrjú tímabil, 30 mínútur í senn, á milli klukkan hálffimm og sex síðdegis frá nóvember til febrúar sem reyna mest á kerfið í Bretlandi og orkudreifingarfyrirtækið National Grid verðleggur sérstaklega vegna mikillar eftirspurnar. Nú veltir fólk fyrir sér hvort grípa þurfi til rafmagnsskömmtunar á þessum mestu álagstímum um háveturinn.

Ferðablaðamaðurinn kunni Simon Calder veltir þessu fyrir sér í dálki sínum í The Independent og hvort skömmtunin gæti komið niður á ferðafólki á hótelum, veitingahúsum, söfnum eða í samgöngukerfinu. Hann hefur eftir National Grid að ólíklegt sé að straumur verði tekinn af vegna skömmtunar en ef allt fari á versta veg gæti það gerst á fyrirfram tilgreindum tímum síðdegis. 

Þetta dugar Símoni til vangaveltna. Hann sér fyrir sér myrkvaða miðborg Lundúna og hvernig ferðafólk gæti upplifað það. Vissulega hafi stóru hótelin varaafl en skömmtunin gæti truflað síðdegisteið og lystaukana, líka netsamband, sjónvarpsgláp og lyftuferðir. Veitingaþjónustan yrði síðan undir miklu álagi klukkan sjö þegar rafmagn kæmi á að nýju við að seðja hungraða gestina. Sama væri að segja um Lundúnaleikhúsin víðfrægu. Hugsanlega gætu leikarar þraukað í myrkrinu ef þeir gætu treyst því að ljósin féllu á þá klukkan sjö. Líklega myndu söfnin smala öllum gestum út fyrir þrjú og einhver vandræði yrðu í samgöngukerfinu. Aðeins dísilknúnu lestirnar og vagnarnir myndu ganga nema að lestakerfið fengi að halda rafmagni eins og sjúkrahúsin og aðrar slíkar mikilvægar stofnanir samfélagsins. 

Nú rifja fullorðnir Bretar upp ástandið á áttunda áratugnum þegar rafmagn var skammtað vegna verkfalla kolunámumanna. Vinnuvikan var stytt niður í þrjá daga. Fjóra daga vikunnar urðu íbúar Lundúna að láta kertin duga. Söfnin voru hreinlega lokuð. Þó allt fari á versta veg nú í vetur er hæpið að ástandið verði jafn slæmt og á áttunda áratugnum: Rafmagnsskerðingar verði skemmri og fólk fái góðan fyrirvara til að bregðast við. 

Simon Calder lætur sér ekki leiðast, nefnir Kúbu í þessu sambandi. Allir sem hafi farið þangað síðustu þrjá áratugina hafi upplifað tafarlausa myrkvun sem íbúarnir kipptu sér ekki upp við. Símon segir svo: Eins og Kúbverjar, þá þörfnumst við allra þeirra túrista sem við getum sannfært um að koma til Bretlands. Túristarnir komast næst því í efnahag okkar að vera töfratré sem peningar vaxa á. Með því að styðja söfnin okkar, veitingahúsin og hótelin, tryggja erlendu túristarnir að við heimafólkið njótum fjölþættari lífsgæða en ella.

Hann vísar til fyrirspurnar áhyggjufullrar konu um hvort óhætt sé að heimsækja Lundúni í vetur og segist vona að hún láti verða af heimsókninni en það boði hinsvegar ekki gott fyrir ferðaþjónustuna í vetur að hún telji sig þurfa að spyrja.