Samfélagsmiðlar

Græðgin varð þeim að falli

Katarar ætluðu að nota HM til að sýna hvers þeir væru megnugir. Það átti að heilla heiminn með gestrisni og glæsileika. Það sem hefur hinsvegar raungerst er að miklu fleiri en áður hafa áttað sig á því að Katar stendur fyrir spillingu, kúgun og græðgi.

Lesendur sem á annað borð hafa fylgst með HM í Katar hafa auðvitað áttað sig á því að það var furðuleg ákvörðun af FIFA að halda mótið í þessu landi sem skorti bæði fótboltamenningu og innviði til þess að höndla svo flókið verkefni sómasamlega. Áður hefur mótið verið haldið í löndum sem virða hvorki lýðræði né mannréttindi – svo það er ekkert nýtt – en líklega hefur ekkert móttökuland verið vanbúnara að sinna verkinu, þrátt fyrir mikið ríkidæmi.

Á degi hverjum verður ljósara að það voru mistök að halda keppnina í Qatar. Það sætir auðvitað furðu að Qatar hafi á sínum tíma verið valið fram yfir Bandaríkin, Suður-Kóreu, Japan og Ástralíu, sem öll vildu halda keppnina 2022. En græðgin réði þessu vali FIFA. Peningarnir voru látnir tala. Og græðgin heldur áfram að birtast með ýmsum hætti í Katar.

Það kom í ljós í riðlakeppninni að offramboð er á hótelherbergjum og Airbnb-íbúðum í Katar, þvert á það sem spáð hafði verið. Fyrir mótið höfðu ráðamenn (engin þörf á kynhlutleysi hér) í Katar, stjórnendur Qatar Airways, og raunar líka samtök tengd fótboltanum, varað við yfirvofandi húsnæðisskorti á meðan mótið færi fram. Mótshaldarar brugðust við með því að útvega hús og íbúðir, skemmtiferðaskip, gáma-íbúðir og eyðimerkurtjöld til að hýsa fótboltaáhugafólk úr öllum heimshornum. Húsabarónarnir í Doha gerðu ráð fyrir áhlaupi 1,2 milljóna áhangenda fótboltans frá 24.-28. nóvember en nú hefur offramboð valdið hruni á leiguverði og fasteignasalar búast við að áhrifin verði varanleg á fasteignamarkaði. 

Úttekt Reuters-fréttastofunnar sýnir fram á að græðgin hafi orðið leigubröskurum í Katar að falli. Haft er eftir fasteignasölum, húsnæðismiðlurum og leigjendum að umsvifamiklir húsabarónar í landinu hefðu í aðdraganda mótsins sett upp óraunhæft leiguverð. Það hefði hinsvegar leitt til þess að þúsundir herbergja standa nú auð og ónotuð. 

Margir mótsgesta létu ekki bjóða sér okrið í Doha og ákváðu að gista í nærliggjandi borgum og koma með flugi til að sjá leikina. Nægar flugferðir eru í boði, eða um 500 á dag, flestar frá alþjóðlegu flugmiðstöðinni í Dúbæ. Qatar Airways hafði komið á stórum hluta þessara tenginga fyrir mótið vegna óttans við húsnæðisskort í heimalandinu. 

En nú er sama hvað húsnæðismiðlarar í Doha bjóða, fótboltaáhugafólkið kýs frekar að búa annars staðar. Áhrifin af þessum flótta eru þau að tveggja herbergja íbúð í Doha, sem í október bauðst á 1.200 dollara fyrir nóttina, var komin niður í 250 dollara í mótsbyrjun. 

Yfirvöld húsnæðismála í Katar hafa ekki svarað fyrirspurnum Reuters-fréttastofunnar um það hversu mörg gistirými standa auð og af hverju væntingar um eftirspurn hafi ekki ræst.

Græðgin sem felldi húsabaróna í Doha verður þó ekki eina minningin um þetta HM í eyðimörkinni.

Fólk hefur líka fengið að sjá hvernig komið er fyrir FIFA, sem reynt hefur að þóknast gestgjöfum með því að hefta tjáningu leikmanna og áhorfenda – setja hömlur á gleðina. Lengst mun þó vafalaust lifa skömmin vegna þeirrar meðferðar sem verkamenn frá Indlandi, Pakistan, Nepal, Bangladesh og Sri Lanka sættu á framkvæmdatímanum. Um 6.500 þeirra eru taldir hafa látist af ýmsum ástæðum sem rekja má til aðbúnaðar á vinnustöðum og ófullnægjandi íbúðahúsnæðis á framkvæmdasvæðum í Katar.

Strax árið 2016 gagnrýndi Amnesty International aðbúnað erlendu verkamannanna í Katar. Einhverjar umbætur voru gerðar en áfram voru aðbúnaður og kjör algjörlega ófullnægjandi.

Allir vissu af þessu en FIFA og landsliðin létu sig hafa það að mæta til leiks.

Nýtt efni

„Metnaðurinn hjá hópnum er einstakur og það eru lífsgæði að starfa með jafn öflugu fólki og hér er að finna hjá Play,“ sagði Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins, í tilkynningu um síðustu mánaðamót. Nú liggur fyrir að Birgir mun kveðja samstarfsfólk sitt um næstu mánaðamót, nokkrum dögum fyrir þriggja ára starfsafmæli sitt hjá Play. Frá þessu …

Nefnd Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) sem fjallar um verndun sjávar hóf vikulanga fundalotu í London í morgun þar sem m.a. verður rætt um aðgerðir til að draga úr losun CO2 frá kaupskipaflota heimsins. Vinnuhópur hefur fjallað um þau mál síðustu daga. IMO er stofnun Sameinuðu þjóðanna sem ber ábyrgð á öryggi og vernd skipa og vörnum gegn …

Í tilkynningu sem ráðuneyti sem fer með ríkiskaup Póllands sendi um helgina kemur fram að LOT standi nú frammi fyrir þeirri ákvörðun að halda sig við flugvélar brasilíska framleiðandans Embraer fyrir skemmri flugleiðir eða velja frekar vélar frá Airbus í Frakklandi. Leitað verður til beggja framleiðenda og þeir beðnir um tilboð í smíði 84 flugvéla …

Loftmengun hefur minnkað í Evrópu á síðustu 20 árum, samkvæmt nýrri spænskri rannsókn. Þrátt fyrir þetta sýnir rannsóknin líka að loftmengun víðast hvar í Evrópu er enn yfir heilsufarsmörkum.  Í rannsókninni, sem birtist í Nature, voru mengunartölur skoðaðar á 1.400 svæðum, innan 35 ríkja, þar sem 543 milljónir manns búa.  Þrátt fyrir að enn sé …

„Á tiltölulega skömmum tíma er orðið til öflugt íslenskt lággjaldaflugfélag með framúrskarandi vöru og þjónustu og bjarta framtíð. Virk samkeppni í flugi sem skilar sér í lægri fargjöldum, fjölbreyttum áfangastöðum og verðmætum erlendum gestum er sérstaklega mikilvæg fyrir eyju eins og okkar. Slík samkeppni varðar hagsmuni allra Íslendinga. Ég geng þess vegna ákaflega stoltur frá …

Hvað varð um Graham Potter? spyrja margir fótboltaunnendur nú þegar liðið er næstum eitt ár síðan þessi listhneigði fótboltaþjálfari stjórnaði fótboltaliði frá hliðarlínunni. Chelsea var síðasti áfangastaður Potters en þaðan var hann rekinn þann 2. apríl árið 2023 eftir aðeins sjö mánuði í starfi. Potter mætti til Chelsea fullur af bjartsýni eftir glæsislegan þjálfaraferil í …

Skýrslan Policy tools for sustainable and healthy eating - Enabling a food transition in the Nordic countries er unnin í kjölfar útgáfu Norrænna næringarráðleggina (Nordic Nutrition Recommendations) árið 2023 sem var afrakstur fimm ára vinnu hundruða sérfræðinga um ráðlagðar matarvenjur og næringu fólks á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Sú útgáfa hlaut mikla athygli enda í …

Bílaleigan Hertz stóð tæpt í lok heimsfaraldursins og þá tók forstjórinn Stephen Scherr þá djörfu ákvörðun að panta 100 þúsund bíla frá Tesla. Með þessu átti Hertz verða leiðandi í útleigu á rafbílum og vöktu viðskiptin mikla athygli. Ekki leið á löngu þar til Tesla hafði lækkað verðið á nýjum bílum umtalsvert og um leið …