Samfélagsmiðlar

Græðgin varð þeim að falli

Katarar ætluðu að nota HM til að sýna hvers þeir væru megnugir. Það átti að heilla heiminn með gestrisni og glæsileika. Það sem hefur hinsvegar raungerst er að miklu fleiri en áður hafa áttað sig á því að Katar stendur fyrir spillingu, kúgun og græðgi.

Lesendur sem á annað borð hafa fylgst með HM í Katar hafa auðvitað áttað sig á því að það var furðuleg ákvörðun af FIFA að halda mótið í þessu landi sem skorti bæði fótboltamenningu og innviði til þess að höndla svo flókið verkefni sómasamlega. Áður hefur mótið verið haldið í löndum sem virða hvorki lýðræði né mannréttindi – svo það er ekkert nýtt – en líklega hefur ekkert móttökuland verið vanbúnara að sinna verkinu, þrátt fyrir mikið ríkidæmi.

Á degi hverjum verður ljósara að það voru mistök að halda keppnina í Qatar. Það sætir auðvitað furðu að Qatar hafi á sínum tíma verið valið fram yfir Bandaríkin, Suður-Kóreu, Japan og Ástralíu, sem öll vildu halda keppnina 2022. En græðgin réði þessu vali FIFA. Peningarnir voru látnir tala. Og græðgin heldur áfram að birtast með ýmsum hætti í Katar.

Það kom í ljós í riðlakeppninni að offramboð er á hótelherbergjum og Airbnb-íbúðum í Katar, þvert á það sem spáð hafði verið. Fyrir mótið höfðu ráðamenn (engin þörf á kynhlutleysi hér) í Katar, stjórnendur Qatar Airways, og raunar líka samtök tengd fótboltanum, varað við yfirvofandi húsnæðisskorti á meðan mótið færi fram. Mótshaldarar brugðust við með því að útvega hús og íbúðir, skemmtiferðaskip, gáma-íbúðir og eyðimerkurtjöld til að hýsa fótboltaáhugafólk úr öllum heimshornum. Húsabarónarnir í Doha gerðu ráð fyrir áhlaupi 1,2 milljóna áhangenda fótboltans frá 24.-28. nóvember en nú hefur offramboð valdið hruni á leiguverði og fasteignasalar búast við að áhrifin verði varanleg á fasteignamarkaði. 

Úttekt Reuters-fréttastofunnar sýnir fram á að græðgin hafi orðið leigubröskurum í Katar að falli. Haft er eftir fasteignasölum, húsnæðismiðlurum og leigjendum að umsvifamiklir húsabarónar í landinu hefðu í aðdraganda mótsins sett upp óraunhæft leiguverð. Það hefði hinsvegar leitt til þess að þúsundir herbergja standa nú auð og ónotuð. 

Margir mótsgesta létu ekki bjóða sér okrið í Doha og ákváðu að gista í nærliggjandi borgum og koma með flugi til að sjá leikina. Nægar flugferðir eru í boði, eða um 500 á dag, flestar frá alþjóðlegu flugmiðstöðinni í Dúbæ. Qatar Airways hafði komið á stórum hluta þessara tenginga fyrir mótið vegna óttans við húsnæðisskort í heimalandinu. 

En nú er sama hvað húsnæðismiðlarar í Doha bjóða, fótboltaáhugafólkið kýs frekar að búa annars staðar. Áhrifin af þessum flótta eru þau að tveggja herbergja íbúð í Doha, sem í október bauðst á 1.200 dollara fyrir nóttina, var komin niður í 250 dollara í mótsbyrjun. 

Yfirvöld húsnæðismála í Katar hafa ekki svarað fyrirspurnum Reuters-fréttastofunnar um það hversu mörg gistirými standa auð og af hverju væntingar um eftirspurn hafi ekki ræst.

Græðgin sem felldi húsabaróna í Doha verður þó ekki eina minningin um þetta HM í eyðimörkinni.

Fólk hefur líka fengið að sjá hvernig komið er fyrir FIFA, sem reynt hefur að þóknast gestgjöfum með því að hefta tjáningu leikmanna og áhorfenda – setja hömlur á gleðina. Lengst mun þó vafalaust lifa skömmin vegna þeirrar meðferðar sem verkamenn frá Indlandi, Pakistan, Nepal, Bangladesh og Sri Lanka sættu á framkvæmdatímanum. Um 6.500 þeirra eru taldir hafa látist af ýmsum ástæðum sem rekja má til aðbúnaðar á vinnustöðum og ófullnægjandi íbúðahúsnæðis á framkvæmdasvæðum í Katar.

Strax árið 2016 gagnrýndi Amnesty International aðbúnað erlendu verkamannanna í Katar. Einhverjar umbætur voru gerðar en áfram voru aðbúnaður og kjör algjörlega ófullnægjandi.

Allir vissu af þessu en FIFA og landsliðin létu sig hafa það að mæta til leiks.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …