Samfélagsmiðlar

Græðgin varð þeim að falli

Katarar ætluðu að nota HM til að sýna hvers þeir væru megnugir. Það átti að heilla heiminn með gestrisni og glæsileika. Það sem hefur hinsvegar raungerst er að miklu fleiri en áður hafa áttað sig á því að Katar stendur fyrir spillingu, kúgun og græðgi.

Lesendur sem á annað borð hafa fylgst með HM í Katar hafa auðvitað áttað sig á því að það var furðuleg ákvörðun af FIFA að halda mótið í þessu landi sem skorti bæði fótboltamenningu og innviði til þess að höndla svo flókið verkefni sómasamlega. Áður hefur mótið verið haldið í löndum sem virða hvorki lýðræði né mannréttindi – svo það er ekkert nýtt – en líklega hefur ekkert móttökuland verið vanbúnara að sinna verkinu, þrátt fyrir mikið ríkidæmi.

Á degi hverjum verður ljósara að það voru mistök að halda keppnina í Qatar. Það sætir auðvitað furðu að Qatar hafi á sínum tíma verið valið fram yfir Bandaríkin, Suður-Kóreu, Japan og Ástralíu, sem öll vildu halda keppnina 2022. En græðgin réði þessu vali FIFA. Peningarnir voru látnir tala. Og græðgin heldur áfram að birtast með ýmsum hætti í Katar.

Það kom í ljós í riðlakeppninni að offramboð er á hótelherbergjum og Airbnb-íbúðum í Katar, þvert á það sem spáð hafði verið. Fyrir mótið höfðu ráðamenn (engin þörf á kynhlutleysi hér) í Katar, stjórnendur Qatar Airways, og raunar líka samtök tengd fótboltanum, varað við yfirvofandi húsnæðisskorti á meðan mótið færi fram. Mótshaldarar brugðust við með því að útvega hús og íbúðir, skemmtiferðaskip, gáma-íbúðir og eyðimerkurtjöld til að hýsa fótboltaáhugafólk úr öllum heimshornum. Húsabarónarnir í Doha gerðu ráð fyrir áhlaupi 1,2 milljóna áhangenda fótboltans frá 24.-28. nóvember en nú hefur offramboð valdið hruni á leiguverði og fasteignasalar búast við að áhrifin verði varanleg á fasteignamarkaði. 

Úttekt Reuters-fréttastofunnar sýnir fram á að græðgin hafi orðið leigubröskurum í Katar að falli. Haft er eftir fasteignasölum, húsnæðismiðlurum og leigjendum að umsvifamiklir húsabarónar í landinu hefðu í aðdraganda mótsins sett upp óraunhæft leiguverð. Það hefði hinsvegar leitt til þess að þúsundir herbergja standa nú auð og ónotuð. 

Margir mótsgesta létu ekki bjóða sér okrið í Doha og ákváðu að gista í nærliggjandi borgum og koma með flugi til að sjá leikina. Nægar flugferðir eru í boði, eða um 500 á dag, flestar frá alþjóðlegu flugmiðstöðinni í Dúbæ. Qatar Airways hafði komið á stórum hluta þessara tenginga fyrir mótið vegna óttans við húsnæðisskort í heimalandinu. 

En nú er sama hvað húsnæðismiðlarar í Doha bjóða, fótboltaáhugafólkið kýs frekar að búa annars staðar. Áhrifin af þessum flótta eru þau að tveggja herbergja íbúð í Doha, sem í október bauðst á 1.200 dollara fyrir nóttina, var komin niður í 250 dollara í mótsbyrjun. 

Yfirvöld húsnæðismála í Katar hafa ekki svarað fyrirspurnum Reuters-fréttastofunnar um það hversu mörg gistirými standa auð og af hverju væntingar um eftirspurn hafi ekki ræst.

Græðgin sem felldi húsabaróna í Doha verður þó ekki eina minningin um þetta HM í eyðimörkinni.

Fólk hefur líka fengið að sjá hvernig komið er fyrir FIFA, sem reynt hefur að þóknast gestgjöfum með því að hefta tjáningu leikmanna og áhorfenda – setja hömlur á gleðina. Lengst mun þó vafalaust lifa skömmin vegna þeirrar meðferðar sem verkamenn frá Indlandi, Pakistan, Nepal, Bangladesh og Sri Lanka sættu á framkvæmdatímanum. Um 6.500 þeirra eru taldir hafa látist af ýmsum ástæðum sem rekja má til aðbúnaðar á vinnustöðum og ófullnægjandi íbúðahúsnæðis á framkvæmdasvæðum í Katar.

Strax árið 2016 gagnrýndi Amnesty International aðbúnað erlendu verkamannanna í Katar. Einhverjar umbætur voru gerðar en áfram voru aðbúnaður og kjör algjörlega ófullnægjandi.

Allir vissu af þessu en FIFA og landsliðin létu sig hafa það að mæta til leiks.

Nýtt efni

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar um síðustu helgi, þýska AIDAsol með nærri í 2.200 farþega. Á sunnudag koma tvö skip með væntanlega 3.000 - 4.000 farþega. Það er farþegafjöldi undir öllum viðvörunarmörkum sem Ísafjarðarbær ætlar að fylgja í framtíðinni vegna komu skemmtiferðaskipa. Nýsamþykktar fjöldatakmarkanir gilda raunar ekki á þessu ári þar sem bókanir hafa …

Í marsmánuði fór fjöldi erlendra ferðamanna í Japan í fyrsta skipti yfir 3 milljónir, samkvæmt tölum sem birtar voru í síðustu viku. Um 2,7 milljónir komu í febrúar. Auðvitað nýtur japönsk ferðaþjónusta nú uppsafnaðrar löngunar erlendra ferðamanna á að heimsækja loks Japan eftir langvarandi lokun og ferðahindranir í tengslum við Covid-19 en það er ekki …

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands var heiðraður á ársfundi Meet in Reykjavik í gær. Hann leiddi til sigurs umsókn Íslands um að fá ráðstefnuna „International Geoscience and Remote Sensing Symposium (IGARSS)“ til Reykjavíkur í júlí 2027. Gert er ráð fyrir að 2.500 erlendir vísindamenn og fagfólk á sviði fjarkönnunar frá öllum heimshornum sæki ráðstefnuna …

United Airlines tilkynntu í gær um betri afkomu en vænst var á öðrum ársfjórðungi. Þetta kemur í framhaldi af því að tapið á fyrsta fjórðungi var minna en óttast hafði verið. Megin ástæða þess að vel gengur er einfaldlega mikill áhugi á ferðalögum. Hlutabréf í United hækkuðu strax í fyrstu viðskiptum eftir að tilkynnt var …

Japanskir bílaframleiðandur hafa dregist aftur úr nýrri fyrirtækjum á borð við bandaríska Tesla og kínverska BYD í þróun rafbílasmíði. En menn velta því fyrir sér hvort japanskir framleiðendur á borð við Toyota og Nissan verði ekki fljótir að vinna upp það forskot - og jafnvel ná forystu - með þróun nýrrar gerðar rafhlaðna, sem vonir …

„Viltu nýjan bíl? Ef svarið er já, þá þurfum við að finna pening til að kaupa bílinn. Við getum aflað hans með sjávarútvegi en sú grein er takmörkuð og margir vilja setja skorður á fiskeldi. Til að auka framleiðslu á málmum þarf meiri raforku. Þá er það ferðaþjónustan sem er eftir og því þarf að …

Yfir veturinn eru Bretar fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi en fyrstu þrjá mánuði þessa árs innrituðu 109 þúsund breskir farþegar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli. Fjöldinn stóð í stað frá sama tíma í fyrra en hins vegar fjölgaði brottförum útlendinga um tíund þessa þrjá mánuði. Efnahagsástandið í Bretlandi kann að skýra að það …

Því var fagnað í gær að undirrituð hefði verið viljayfirlýsingu um að Íslandshótel og fjárfestar tengdir Skógarböðunum ætluðu að byggja og reka fjögurra stjörnu hótel við Skógarböðin í Eyjafirði gegnt Akureyri. Á væntanlegu baðhóteli verða 120 herbergi. Sjallinn - MYND: Facebook-síða Sjallans Íslandshótel hafa líka haft áform um að reisa hótel í miðbæ Akureyrar, þar …