Grænum túristum fjölgar

Umhverfisvitund ræður í vaxandi mæli hvert og hvernig fólk ferðast. Þeir sem meðvitaðir eru um mikilvægi minni kolefnislosunar og umhverfisverndar haga ferðum sínum þegar með þetta í huga.

Gamall Citroën-braggi og hjól í París. Nýtni og vistvænar lausnir. MYND: ÓJ

Ferðafólk hugsar í vaxandi mæli um mikilvægi sjálfbærni. Þetta kemur vel í ljós í könnun sem VisitDenmark, sem er markaðsstofa ferðamála í Danmörku, lét gera meðal þeirra sem heimsóttu London, París, Mílanó og Róm. Yfir fjögur þúsund manns svöruðu spurningum. Um helmingur ferðafólksins, 42 til 56 prósent, gera ráð fyrir að umhverfisvitund og krafa um sjálfbærni ráði ferðum þess í framtíðinni. Þetta eru umhverfisverndarsinnarnir, hinir grænu túristar heimsins – og þeim fer fjölgandi. 

Sjálfa yfir Signu – MYND: ÓJ

Fjórðungur ferðafólks í Mílanó og Róm lét sér með einhverjum hætti annt um umhverfið í síðustu ferð sinni. Hlutfallið var svipað meðal þeirra sem sóttu London heim en hátt í helmingur þeirra sem fóru til Parísar höfðu hugað að umhverfisáhrifum. 

„Jafnvel þó að það sé aðeins minnihluti fólks sem tekur beinar ákvarðanir sem lúta að kröfum um sjálfbærni í fríinu þá hafa þau sjónarmið áhrif á um helming þess. Krafan um sjálfbærni er farin að skipta máli þegar haldið er í sumarfrí,” segir Dennis Englund, markaðsstjóri VisitDenmark í Bretlandi. Ghita Scharling Sørensen, sem stýrir markaðsmálum Dana á ferðamörkuðunum á Ítalíu og Frakklandi, segir að allar þjóðir telji sjálfbærni mikilvæga en nokkur munur sé á því milli landa hvaða skilning fólk setur í hugtakið. Þar komi fram munur á menningu og viðhorfum.

Sjálfbær tónlistarbúskapur á Signubrú – MYND: ÓJ

Umhverfisverndarsinnar eru flestir í París, af þeim borgum sem könnunin náði til. Þeir teljast vera 56 prósent af heildarfjölda. Og 45 prósent létu sjálfbærni ráða ákvörðunum og vali í síðasta sumarfríi. 

„Sjálfbærni er ofarlega á baugi í þjóðfélagsumræðunni í Frakklandi, einkum í stærri borgunum. Frakkar eru uppteknir af matarsóun, lífrænni ræktun, flokkun á sorpi, sjálfbærum lífsmáta og hvernig gera megi samgöngur vistvænni. Í þessum efnum hefur Danmörk af mörgu að státa en Frakkland er í forystu á mörgum þessara sviða.,” segir Ghita Scharling Sørensen. 

Á síðasta ári bönnuðu Frakkar flug á stuttum innanlandsleiðum, þar sem auðvelt er að ferðast með lest. Frakkar virðast þó ekki yfirkomnir af flugskömm. Þó er merkjanlegur munur milli hópa: Umhverfisverndarfólk flýgur sjaldnar en aðrir. 

Dennis Englund segir að samkvæmt þessari könnun sem VisitDenmark lét gera sé Danmörk eftirsóknarverður áfangastaður í augum grænna túrista. Ástæðan er ekki endilega sú að Danmörk sé lengra komin en önnur lönd í að auka sjálfbærni heldur eru umhverfismálin einn þeirra þátta sem styðja við þann gæðastimpil sem landið hefur í augum þeirra Breta sem eru vel menntaðir og hafa tekjur yfir meðallagi. 

Við Louisiana-safnið í Humlebæk, þaðan sem horft er út á Eyrarsund – MYND: ÓJ

Þó að Danir geti verið þokkalega sáttir með orðsporið þá sýna niðurstöður þessarar könnunar að hinar Norðurlandaþjóðirnar njóta enn meira álits meðal umhverfisverndarsinna. „Þegar litið er til norðanverðrar Evrópu þá stendur Danmörk vel að vígi í samkeppni við Írland og Þýskaland – en Svíþjóð, Noregur og Finnland njóta nokkru meira álits í þessum efnum en Danmörk,”  segir Ghita Scharling Sørensen. Ísland er ekki nefnt til sögunnar í frétt VisitDenmark. Hún segir að í allri markaðssetningu á Danmörku og Kaupmannahöfn sé sjónarhorn sjálfbærni haft í huga. Kaupmannahöfn sé lýst sem hreinni borg við tæran sjó. Þar séu góðar almenningssamgöngur, græn svæði og hjólastígar – atriði sem stuðla að almennri velferð og íbúa og ættu að hvetja til heimsókna.