Samfélagsmiðlar

Grænum túristum fjölgar

Umhverfisvitund ræður í vaxandi mæli hvert og hvernig fólk ferðast. Þeir sem meðvitaðir eru um mikilvægi minni kolefnislosunar og umhverfisverndar haga ferðum sínum þegar með þetta í huga.

Gamall Citroën-braggi og hjól í París. Nýtni og vistvænar lausnir.

Ferðafólk hugsar í vaxandi mæli um mikilvægi sjálfbærni. Þetta kemur vel í ljós í könnun sem VisitDenmark, sem er markaðsstofa ferðamála í Danmörku, lét gera meðal þeirra sem heimsóttu London, París, Mílanó og Róm. Yfir fjögur þúsund manns svöruðu spurningum. Um helmingur ferðafólksins, 42 til 56 prósent, gera ráð fyrir að umhverfisvitund og krafa um sjálfbærni ráði ferðum þess í framtíðinni. Þetta eru umhverfisverndarsinnarnir, hinir grænu túristar heimsins – og þeim fer fjölgandi. 

Sjálfa yfir Signu – MYND: ÓJ

Fjórðungur ferðafólks í Mílanó og Róm lét sér með einhverjum hætti annt um umhverfið í síðustu ferð sinni. Hlutfallið var svipað meðal þeirra sem sóttu London heim en hátt í helmingur þeirra sem fóru til Parísar höfðu hugað að umhverfisáhrifum. 

„Jafnvel þó að það sé aðeins minnihluti fólks sem tekur beinar ákvarðanir sem lúta að kröfum um sjálfbærni í fríinu þá hafa þau sjónarmið áhrif á um helming þess. Krafan um sjálfbærni er farin að skipta máli þegar haldið er í sumarfrí,” segir Dennis Englund, markaðsstjóri VisitDenmark í Bretlandi. Ghita Scharling Sørensen, sem stýrir markaðsmálum Dana á ferðamörkuðunum á Ítalíu og Frakklandi, segir að allar þjóðir telji sjálfbærni mikilvæga en nokkur munur sé á því milli landa hvaða skilning fólk setur í hugtakið. Þar komi fram munur á menningu og viðhorfum.

Sjálfbær tónlistarbúskapur á Signubrú – MYND: ÓJ

Umhverfisverndarsinnar eru flestir í París, af þeim borgum sem könnunin náði til. Þeir teljast vera 56 prósent af heildarfjölda. Og 45 prósent létu sjálfbærni ráða ákvörðunum og vali í síðasta sumarfríi. 

„Sjálfbærni er ofarlega á baugi í þjóðfélagsumræðunni í Frakklandi, einkum í stærri borgunum. Frakkar eru uppteknir af matarsóun, lífrænni ræktun, flokkun á sorpi, sjálfbærum lífsmáta og hvernig gera megi samgöngur vistvænni. Í þessum efnum hefur Danmörk af mörgu að státa en Frakkland er í forystu á mörgum þessara sviða.,” segir Ghita Scharling Sørensen. 

Á síðasta ári bönnuðu Frakkar flug á stuttum innanlandsleiðum, þar sem auðvelt er að ferðast með lest. Frakkar virðast þó ekki yfirkomnir af flugskömm. Þó er merkjanlegur munur milli hópa: Umhverfisverndarfólk flýgur sjaldnar en aðrir. 

Dennis Englund segir að samkvæmt þessari könnun sem VisitDenmark lét gera sé Danmörk eftirsóknarverður áfangastaður í augum grænna túrista. Ástæðan er ekki endilega sú að Danmörk sé lengra komin en önnur lönd í að auka sjálfbærni heldur eru umhverfismálin einn þeirra þátta sem styðja við þann gæðastimpil sem landið hefur í augum þeirra Breta sem eru vel menntaðir og hafa tekjur yfir meðallagi. 

Við Louisiana-safnið í Humlebæk, þaðan sem horft er út á Eyrarsund – MYND: ÓJ

Þó að Danir geti verið þokkalega sáttir með orðsporið þá sýna niðurstöður þessarar könnunar að hinar Norðurlandaþjóðirnar njóta enn meira álits meðal umhverfisverndarsinna. „Þegar litið er til norðanverðrar Evrópu þá stendur Danmörk vel að vígi í samkeppni við Írland og Þýskaland – en Svíþjóð, Noregur og Finnland njóta nokkru meira álits í þessum efnum en Danmörk,”  segir Ghita Scharling Sørensen. Ísland er ekki nefnt til sögunnar í frétt VisitDenmark. Hún segir að í allri markaðssetningu á Danmörku og Kaupmannahöfn sé sjónarhorn sjálfbærni haft í huga. Kaupmannahöfn sé lýst sem hreinni borg við tæran sjó. Þar séu góðar almenningssamgöngur, græn svæði og hjólastígar – atriði sem stuðla að almennri velferð og íbúa og ættu að hvetja til heimsókna. 

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …