Hlutafjárútboðið gekk ekki upp

Jómfrúarferð Flyr var farin í lok júní í fyrra og flýgur félagið bæði innanlands í Noregi en einnig þaðan til meginlands Evrópu. MYND: FLYR

Stjórnendur norska flugfélagsins Flyr boðuðu til hlutafjárútboðs á fimmtudaginn í síðustu viku sem fór fram í dag. Lagt var upp með að safna að minnsta kosti 430 milljónum norskra króna eða um sex milljörðum íslenskra króna en þetta er þriðja útboðið sem Flyr hefur ráðist í síðan félagið hóf áætlunarflug í júní í fyrra.

Hver hlutur var boðinn á aðeins einn norska eyri sem er langt undir markaðsvirði Flyr en þrátt fyrir það var þátttakan í útboðinu ekki nægjanleg. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Flyr en þar segir að unnið sé að annarri fjármögnunarleið þar sem bæði núverandi og nýir fjárfestar komi að. Nánari upplýsingar um þessa leið verða veittar fyrir opnun kauphallarinnar í Ósló á morgun.