Icelandair frestar áformum um flug milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar

Forráðamenn Icelandair hafa ákveðið að fresta til vorsins 2024 að hefja áætlunarflug milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar. Tómas Ingason, framkvæmdastjóri leiðakerfis og sölu, segir verkefnið hafa verið flóknara en búist var við.

Tómas Ingason, framkvæmdastjóri leiðakerfis og sölu Icelandair MYND: ÓJ

„Við viljum ná betri tökum á ýmsum verkefnum í innanlandsfluginu áður en við víkkum starfsemina út. Það er býsna flókið að setja upp nauðsynlega starfsemi á Akureyri. Við viljum undirbúa þetta vel. Aðfangakeðjur eru flóknari en fyrir heimsfaraldur og við þurfum að taka mið af því.“

Fyrirhugaður komusalur millilandaflugs á Akureyrarflugvelli – MYND: ÓJ

Er þessi ákvörðun tekin vegna vandræða með flugvélar eða eru einhverjar sérstakar hindranir á flugvöllunum á Akureyri og í Keflavík?

„Nei, við tökum þessa ákvörðun út frá heildarmyndinni. Við stöndum frammi fyrir ýmsum flóknum verkefnum og vildum undirbúa þetta betur áður en við færum af stað. Gera þetta vel frá upphafi. Við finnum til ábyrgðar gagnvart innanlandsfluginu og viljum koma því vel á laggir áður en við hefjum flug milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar, sem er mun flóknara verkefni.

Við erum eftir sem áður mjög spennt fyrir þessari tengingu. Teljum að í henni felist mikil tækifæri, bæði fyrir íbúana fyrir norðan, sem geti vaknað á svipuðum tíma og höfuðborgarbúar til að komast í flug frá Keflavík, en það er ekki síður ábyrgðarhluti að dreifa ferðafólki betur um landið. Við teljum að þetta fyrirhugaða flug verði mikilvægt í því sambandi.“

Það er viðbúið að þessi seinkun valdi vonbrigðum á Norðurlandi.

„Já, það má búast við því. Eftir sem áður eru góðar tengingar í gegnum Reykjavíkurflugvöll. Með samþættingu á flugi Icelandair og innanlandsflugi Air Iceland Connect bauðst fólki að kaupa einn flugmiða út í heim. Við ábyrgjumst þannig ferðalagið í heild.“

Keflavíkurflugvöllur – MYND: ÓJ

En ferðalagið verður óneitanlega tímafrekara með því að innanlandsflugvélar lendi í Reykjavík en ekki í Keflavík.

„Jú, og þess vegna erum við spennt að geta boðið þennan nýja möguleika vorið 2024.“

Þið eruð sem sagt ekki hætt við.

„Nei, alls ekki.“