Japanar aflétta tveggja og hálfs árs banni á komur skemmtiferðaskipa

Ferðaþjónustan er að færast hægt og bítandi í eðlilegra horf í Japan eftir heimsfaraldur. Nú er komið að því leyfa komur skemmtiferðaskipa.

Lystiskip við Skarfabakka
Skemmtiferðaskip í Reykjavík MYND: ÓJ

Japanar bönnuðu komur skemmtiferðaskipa til landsins í mars 2020 eftir að kórónafaraldur blossaði upp um borð í skipinu Diamond Princess. Allir farþegar, 3.711 talsins og áhöfnin voru í sóttkví um borð í tvær vikur. Um 700 smituðust og 13 dóu. Þessi ákvörðun um að beita landamæraeftirliti með þessum hætti og eiga á hættu að sóttin gengi manna á milli um borð var gagnrýnd á sínum tíma.

Samgönguráðuneyti Japans tilkynnti í dag að skipafélög og hafnarstjórnir í landinu hefðu fallist á leiðbeinandi reglur varðandi sóttvarnir og landið gæti því á ný tekið á móti erlendum skemmtiferðaskipum.

„Japan er tilbúið að taka á móti erlendum skemmtiferðaskipum að nýju. Við munum skapa aðstæður sem tryggja að farþegar geta verið áhyggjulausir á meðan þeir dvelja í Japan,“ hefur AP-fréttastofan eftir Tetsuo Saito, samgöngu- og ferðamálaráðherra.

Ekki hefur verið tilkynnt hvenær von er á fyrstu skemmtiferðaskipunum í Japan.