Katarar í hefndarhug

Samgönguyfirvöld í London neita að birta auglýsingar um ferðir til Katar, sem birta átti í strætisvögnum, leigubílum og neðanjarðarlestum. Katarar eru sármóðgaðir og hóta að endurmeta viðamiklar fjárfestingar sínar í borginni. Meðal eigna Katara er fimmtungshlutur í Heathrow-flugvelli.

Katar ætlaði að heilla heimsbyggðina með því að halda HM í fótbolta karla 2022. Olíuríkið við Persaflóa hefur hinsvegar sætt mikilli og vaxandi gagnrýni fyrir frammistöðuna í hlutverki gestgjafans. Ekki var á það bætandi. Meðferð Katara á farandverkamönnum sem unnu að umfangsmikilli mannvirkjagerð fyrir mótið hefur víða verið fordæmd. HM hófst engu að síður á tilætluðum tíma. Síðan hafa hrannast upp óveðursský víða. Margir vilja nú refsa Katörum eða láta þá ekki komast upp með að fegra ímynd sína fyrir augum almennings.

london David Dibert
Strætisvagnar á Westminster-brúnni

Meðal þeirra sem nú setja Katörum stólinn fyrir dyrnar er TfL, fyrirtækið sem rekur almenningssamgöngur í London (Transport for London). Í forsæti fyrirtækisins er Sadiq Khan, borgarstjóri. Hann kom þeim skilaboðum áleiðis til ferðamálayfirvalda í Katar og Q22, sem hefur yfirumsjón með HM, að auglýsingarnar yrði ekki birtar vegna afstöðu Katara til réttinda LGBT-fólks og meðferðar á farandverkamönnum. Afstaða TfL er klár: Auglýsingar sem lýsa Katar sem eftirsóknarverðum áfangastað ferðafólks eru ekki boðlegar í almannarými í London, borg fjölbreytileikans. 

Financial Times segir frá því í helgarblaði sínu að Katarar túlki þessi skilaboð frá skrifstofu borgarstjórans þannig að ekki sé áhugi á að eiga viðskipti við þá. 

Þjóðarsjóður Katar er meðal stærstu fjárfesta í London. Í gegnum fjárfestingasjóð sinn (QIA) hafa Katarar eignast stórverslunina Harrods, Shard-skýjakljúfinn og hluta Canary Wharf. Katarar eiga líka The Savoy og Grosvenor House, nafnkunn hótel í London, 20 prósent í Heathrow-flugvelli og 14 prósent í Sainsbury´s, næst stærstu keðju matvöruverslana í landinu.

Meðal fasteigna Katara í LOndon er Shard-skýjakljúfurinn, sem þarna ber við himin

Katarar eru sármóðgaðir vegna afstöðu yfirvalda í London, vísa á bug ásökunum um misrétti og fordóma. En það á eftir að koma í ljós hversu mikil alvara þeim er með hótunum um að endurskoða stórtæka fjárfestingastefnu sína í London – selja hluti sína.