Methagnaður en hlutbréfin hrynja

Frá skrifstofum Airbnb. MYND: AIRBNB

Tekjur bandarísku gistimiðlunarinnar Airbnb á þriðja fjórðungi ársins námu 2,9 milljörðum dollara eða um 426 milljörðum króna á gengi dagsins. Svo háar hafa tekjur fyrirtækisins ekki áður verið á einum fjórðungi og hagnaðurinn fór í fyrsta sinn yfir milljarð dollara.

Airbnb líkt og flugfélögin nýtur góðs af því að neytendur eru tilbúnir til að borga óvenju mikið fyrir ferðalög þessi misserin.

Uppgjörið var birt seinnipart þriðjudags og þá sögðu stjórnendur félagsins að horfurnar nú í árslok væru fínar. Bókunarstaðan góð og afbókanir ekki eins tíðar og áður. Þrátt fyrir það þá féllu hlutabréfin í Airbnb um rúmlega 13 prósent í gær og lækkunin í ár nemur 43 prósentum.

Airbnb er sem fyrr mjög umsvifamikið á íslenska gistimarkaðnum en samkvæmt Mælaborði ferðaþjónustunnar leigja um 3.500 manns hér á landi út gistiaðstöðu á vef gistimiðlunarinnar. Það er um fjórðungi færri en yfir sumarmánuðina árin 2018 og 2019.