Samfélagsmiðlar

Milljón gesta í Hallgrímskirkju

Hallgrímskirkja er sannarlega einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í Reykjavík. Flesta daga liggur stöðugur straumur fólks upp Skólavörðuholtið og inn í þessa stærstu kirkju landsins og eitt helsta tákn borgarinnar. Túristi ræddi við Sigríði Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Hallgrímskirkju.

Nóvemberdagur á Skólavörðuholti.

Mikil starfsemi er í Hallgrímskirkju árið um kring, auk helgihalds fer þar fram margháttað safnaðarstarf og kirkjan er vinsælt tónlistarhús. Til safnaðarins teljast um sjö þúsund manns en margfalt fleiri skoða og njóta kirkjunnar. Hversu margir ferðamenn áætlið þið að skoði kirkjuna á venjulegum degi og í heild árlega? 

Sigríður Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju

„Við áætlum að á venjulegu ári heimsæki Hallgrímskirkju um ein milljón manns. Yfir sumartímann er opið fram á kvöld og það er stöðugur straumur fólks í kirkjuna allan daginn, allt upp í fimm þúsund manns á dag. Yfir veturinn er rólegra en þó á bilinu sex hundruð til tvö þúsund manns á dag.“ 

Í miðasölunni – MYND: ÓJ

Þetta er mikill gestafjöldi. Stór hluti kaupir væntanlega miða og fer upp í 73 metra háan turninn til að njóta útsýnis yfir borgina og umhverfi hennar. 

„Á bilinu 250 til 300 þúsund manns fara á ári hverju upp í turn. Það er breytilegt eftir árstíma hver aðsóknin er og getur sveiflast frá um 200 manns upp í tvö þúsund á dag. Árið 2019 endurnýjuðum við lyftuna, sú nýja er tvöfalt fljótari upp og eykur þannig afköstin töluvert. Það breytir heilmiklu að hafa ekki röð í lyftuna langt inn í kirkju.“ 

Ferðafólk í Hallgrímskirkju – MYND: ÓJ

Hallgrímskirkja var lengi í byggingu. Guðjón Samúelsson byrjaði að teikna hana árið 1937 og framkvæmdir hófust 1945, eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Söfnuðurinn notaði bæði kjallara og suðurálmu turnsins fyrir helgihald en byggingu og frágangi var ekki lokið fyrr en 1986 þegar kirkjan var vígð. Síðan hafa margskonar endurbætur verið gerðar og stöðugt þarf að sinna kostnaðarsömu viðhaldi. Eru tekjur af ferðafólki mikilvægar til að mæta þeim kostnaði? 

Einn vinsælasti myndatökustaður landsins – MYND: ÓJ

„Tekjur af ferðafólki eru í raun forsenda þess að við getum sinnt viðhaldi á kirkjunni og haldið úti öflugu starfi bæði fyrir söfnuðinn og aðra gesti. Sóknargjöldin hrökkva skammt í þeim efnum.“ 

Valda komur ferðafólks í kirkjuna einhverjum ama, truflunum eða skemmdum? Hvað með kostnað? 

„Það getur stundum verið snúið að vera sóknarkirkja með mörg hlutverk. Um leið og við tökum ferðamönnum og öðrum gestum fagnandi þá þurfum við líka að halda uppi safnaðarstarfi, helgihaldi, kirkjulegum athöfnum og tónleikum. Það getur verið heilmikil vinna að halda ferðamönnum frá við lokaðar athafnir en það hefur þó almennt gengið vel. Fólk sýnir skilning um leið og það fær skýringar. 

Gott er að hvílast á kirkjubekkjum – MYND: ÓJ

Ferðamenn sýna almennt kirkjunni mikla virðingu svo við höfum ekki orðið vör við vísvitandi truflanir eða skemmdarverk. Við þurfum auðvitað að sinna viðhaldi vel og endurnýja reglulega ákveðna hluti sem verða fyrir ágangi og álagi en það er eðlilegt þegar svo margir ganga um.“ 

Að kirkjuheimsókn lokinni – MYND: ÓJ

Hver sýnast ykkur viðbrögð gesta vera, kunna þeir að meta kirkjuna?

„Heilt yfir eru gestir mjög hrifnir af Hallgrímskirkju. Hönnun kirkjunnar heillar marga, þessi fágaði hreini stíll sem sést ekki víða í kirkjum. Við vorum að ljúka við að endurhanna alla lýsingu í kirkjunni, bæði að utan og innan, svo nú nýtur byggingin sín enn betur en áður þegar dimma tekur. Þetta er algjör bylting sem býður upp á endalausa möguleika í lýsingu og litum. Það hefur að vonum vakið mikla athygli og lukku. 

Það er gaman að sjá hversu margir gestir setjast niður og slaka á í kirkjubekkjunum, kveikja á kerti og taka inn andann í kirkjunni.“ 

Ferðamannastraumur á Skólavörðustíg á góðum sumardegi – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …