Mörg þúsund Íslendingar til Tenerife í hverjum mánuði

Það eru ófáir Íslendingar sem eiga leið um flugstöðina við suðurströnd Tenerife í hverri viku. MYND: AENA

Það voru 7.495 farþegar sem flugu frá Keflavíkurflugvelli til Tenerife í október og 669 ferðuðust þangað frá Akureyri. Samtals voru farþegarnir því rúmlega 8 þúsund og svo margir hafa þeir ekki áður verið í einum mánuði það sem af er þessu ári eins og sjá má hér fyrir neðan.

Fastlega má gera ráð fyrir að langflestir þessara farþega hafi verið Íslendingar því ferðamannastraumurinn frá Tenerife til Íslands mun ekki vera mikill.

Fyrstu tíu mánuði ársins lentu 61 þúsund farþegar frá Íslandi á Tenerife sem er aukning um fimmtung frá sama tímabili árið 2019. Og búast má við að fjöldi Íslendinga muni dvelja á spænsku eyjunni um jól og áramót því ferðirnar fyrir jólin verða mun fleiri en áður var.