Olían ekki verið ódýrari síðan í janúar

MYND: BP

Verð á olíu hefur lækkað jafnt og þétt síðastliðinn mánuð og nú í morgun féll það um þrjú prósent. Tunna af Norðursjávarolíu kostar nú 81 bandaríkjadollar og leita þarf aftur til fyrstu daga þess árs til að finna sambærilegt verð.

Við innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar hækkaði verð á olíu og í byrjun mars kostaði tunnan af olíu 129 dollara. Um það leyti tvöfaldaði Icelandair eldsneytisálagið hjá sér og Play tók líka upp þess háttar gjaldtöku.

Olíureikningar flugfélaganna tveggja hafa líka verið mjög háir síðustu mánuði og samtals greiddu þau 161 milljón dollara fyrir eldsneyti á þoturnar í júlí, ágúst og september. Sú upphæð jafngildir um 23 milljörðum króna í dag.