Play áfram mun stundvísara en Icelandair

Í ár hefur áætlun Icelandair staðist sjaldnar en hjá helsta keppinautnum.

MYND: TÚRISTI

Þotur Play komu og fóru frá Keflavíkurflugvelli á réttum tíma í 93 prósentum tilvika í október. Hjá Icelandair stóðst áætlunin sjaldnar eða í 77 af hverjum 100 skiptum. Þetta sýna mælingar Isavia en þær ná yfir 30 daga tímabil sem nær til fimmtudagsins í síðustu viku, 27. október.

Stundvísi umsvifamestu erlendu flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli var mun lakari en þeirra íslensku og til að mynda var rétt rúmlega þriðjungur ferða Wizz Air var á áætlun.

Í heildina seinkaði einni af hverjum fjórum brottförum frá Keflavíkurflugvelli í október en fjórar af hverjum fimm lendingum voru á réttum tíma.

Stundvísi í flugi hefur að undanförnu verið lakari en í eðlilegu árferði sem skrifast meðal annars á manneklu á evrópskum flugvöllum. Afgreiðslutíminn hefur því lengst sem riðlar áætlunum og það hefur því reynt meira á þolinmæði farþega.

Og þá oftar þeirra sem fljúga með Icelandair en Play eins og sjá má á línuritinu sem sýnir stundvísi brottfara frá Keflavíkurflugvelli í ár samkvæmt mælingum Isavia.