Portúgal lokkar Bandaríkjamenn

Þeim fjölgar stöðugt sem stunda fjarvinnu og flytjast jafnvel búferlum til annarra landa. Sífellt fleiri Bandaríkjamenn horfa í þessum efnum til Portúgals, sem í þeirra huga býður upp á kalifornískan lífsstíl.

Brýningarmaður í Lissabon með hreyfanlega starfsstöð MYND: ÓJ

Heimsfaraldurinn breytti hugsunarhætti margra. Fólk sækist í vaxandi mæli eftir hægari takti og friðsælli tilveru, vill ekki fara aftur í sömu hjólförin og fyrir faraldurinn: ferðast milli heimilis og vinnustaðar alla virka daga árið um kring. Það vill forðast stressið og halda áfram að vinna heima, eins og það komst á bragðið með að gera fyrir faraldurinn. Margir hafa auðvitað ekkert val. Þurfa að mæta á tiltekinn vinnustað. En það á ekki við um þá sem eru í störfum sem hægt er að sinna að mestu við nettengda tölvu. 

Sporvagn í Lissabon – MYND: ÓJ

AFP-fréttastofan segir frá vaxandi áhuga Bandaríkjamanna á búsetu í Portúgal. Nathan Hadlock, frumkvöðull, segir að hann og sambýlingurinn hafi óskað sér rólegri tilveru og sett saman lista með tíu borgum sem til greina kom að flytjast til. Lissabon hafi orðið ofan á þar sem borgin uppfyllti flestar óskir þeirra. Jonathan Littman, viðskiptamaður frá Kaliforníu, segist á vissan hátt líta á Portúgal sem Kaliforníu í Evrópu. „Heimsfaraldurinn opnaði augu manns fyrir því að hægt væri að búa á hinum og þessum stöðum í heiminum. Það tekur mig aðeins tíu klukkustundir að ferðast hingað og þá er ég kominn í annan heim.”

Vinna og strandlíf í Cascais í Portúgal – MYND: ÓJ

Bandaríkjamenn kunna að meta veðráttuna og matinn í Portúgal og njóta líka góðs af sterkum dollar þegar kemur að framfærslu í Portúgal. Það eru þó ekki síst ný viðmið varðandi vinnuframlag og starfsstöðvar sem fá þá til að hleypa heimdraganum. 

Að sögn portúgalsks ráðgjafa þá eru margir Bandaríkjamenn sem flytjast til Portúgals svokallaðir stafrænir hirðingjar, sem kunna vel við sig nærri ströndinni. Þá vilji margar bandarískar fjölskyldur að börnin sæki evrópska háskóla. Loks eru í þessum hópi eftirlaunaþegar sem selja allar sínar eigur heima í Bandaríkjunum og flytjast til Portúgals. 

Enn eru þó aðeins sjö þúsund Bandaríkjamenn búsettir í Portúgal en komum þeirra til landsins fjölgar hratt, eru þegar orðnar tvöfalt fleiri en árið 2018.