Ráðherrar skoða hvort Dettifossvegur verði opnaður í vetur

Vegakort dagsins á Norðausturlandi, föstudagsins 4. nóvember

Dettifossvegur lokaðist 1. nóvember og Vegagerðin segir það markast af fjárveitingum hvort hann verði ruddur, enn sé mikill halli á vetrarþjónustunni. Þetta er vegur sem byggður var sérstaklega upp til að geta þjónað vegfarendum árið um kring. Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands sagði í viðtali við Túrista i síðustu viku að rætt hefði verið við ráðherra innviða og ferðamála um hvort breytingar yrðu á þessu svo hægt væri að markaðssetja Demantsleiðina árið um kring. 

Túristi leitaði svara hjá Lilju Dögg Alfreðsdóttur, ferðamálaráðherra. Hún svaraði skýrt:

„Við erum að vinna að þessu, ég og innviðaráðherra.”

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra – Mynd: ÓJ

Eftir á að koma í ljós hvort eða hvernig þau ráðherrar og forystufólk í Framsóknarflokknum leysa þetta mál. Lilja segir að þetta snúist ekki bara um „að Vegagerðin haldi opnu, það sé líka tryggt aðgengi að fossinum sjálfum.“ Á það hafa ýmsir bent að ekki sé nóg að ryðja veginn að Dettifossi heldur þurfi jafnframt að vera óhætt að hleypa fólki nær fossinum.

Túristi birtir í dag ítarlegt viðtal við Lilju Alfreðsdóttur, ferðamálaráðherra, um stöðu greinarinnar og hugmyndir hennar um framtíðarstefnuna.