Undirritað hefur verið samkomulag um kaup Kynnisferða á ferðaþjónustufyrirtækinu Actice ehf. sem starfar undir vörumerkinu Activity Iceland. Actice sérhæfir sig í klæðskerasaumuðum ferðalausnum í náttúru Íslands og gerir út 13 breytta jeppa auk þess að bjóða upp á ýmsa aðra þjónustu fyrir ferðamenn. Eigendur þess eru Harpa Groiss, Haraldur G. Bender og Guðjón Häsler.
Kynnisferðir sem starfa undir vörumerkinu Icelandia eru eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Í samstæðu félagsins eru Reykjavik Excursions, Icelandic Mountain Guides, Iceland Rovers, Dive.is, Flybus, dráttarbílafyrirtækið Garðaklettur, Almenningsvagnar Kynnisferða auk þess sem Kynnisferðir eru umboðsaðili bílaleigunnar Enterprise Rent-a-Car á Íslandi.
Kaupin verða tilkynnt Samkeppniseftirlitinu til samþykktar og stendur áreiðanleikakönnun yfir.
„Kaup okkar á Actice auka enn fjölbreytni í okkar rekstri og gefa okkur tækifæri til að veita viðskiptavinum okkar enn breiðara vöruúrvali og einstaka upplifun í íslenskri náttúru. Við hlökkum til að fá Hörpu og Harald, ásamt þeirra frábæra starfsfólki, til liðs við okkar sterka og fjölbreytta hóp starfsmanna,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, í tilkynningu.
Þar er haft eftir eigendum Actice að síðustu sjö ár hafi verið spennandi og viðburðarrík og þeir séu þakklátir starfsfólki og viðskiptavinum.
„Nú tekur við nýr kafli hjá okkur með Kynnisferðum og í sameiningu höldum við áfram því góða starfi sem við höfum af einlægni sinnt frá upphafi. Activity Iceland verður nýjasti hlekkurinn í frábærri heild, það eru spennandi tímar framundan og mörg tækifæri sem bíða okkar undir Icelandia regnhlífinni,“ segja þau Haraldur, Harpa og Guðjón.
