Stærstu hluthafarnir leggja til 2,3 milljarða króna

Play tapaði að jafnaði 8.200 krónum á hverjum farþega fyrstu 9 mánuði ársins.

Nú eru framundan þeir mánuðir sem flugfélög tapa vanalega mestu og Play átti rétt um 3,5 milljarða króna í lausu fé í lok september. Til samanburðar tapaði félagið 4,5 milljörðum króna fyrstu níu mánuði ársins og því var spurt í gær, eftir birtingu á nýju uppgjöri, hvort stjórnendur Play leggðu í veturinn með svo takmarkaðan sjóð.

Svarið kom skömmu fyrir miðnætti þegar Play sendi frá sér tilkynningu um að tuttugu stærstu hluthafar félagsins hafi samþykkt að leggja því til 2,3 milljarða króna. Sú aukning fer fram á genginu 14,6 sem er 4 prósentum undir markaðsgengi hlutabréfanna.

Markmiðið með þessari innspýtingu er „að efla félagið fyrir komandi vöxt og tryggja sterka lausafjárstöðu þess“ að því segir í tilkynningu. Þar er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play, að útlit sé fyrir jákvæða rekstrarafkomu á næsta ári þar sem tekjustofnar verði traustari.

Stærstu hluthafar Play í dag eru Fiskisund, sem er m.a. í eigu stjórnarformannsins Einars Arnar Ólafssonar, fjárfestingafélagið Stoðir auk lífeyrissjóðanna Birtu, Lífsverk og Festi. Sjóðir á vegum Íslandssjóða og Stefnir eru líka áberandi á listanum yfir 20 stærstu hluthafana eins og sjá má hér fyrir neðan.