Tækifæri til fjárfestingar í gistingu á Norðurlandi

Hótel KEA í miðbæ Akureyrar ÓÐINN JÓNSSON MYND: ÓJ

Það eru innan við 300 hótelherbergi í boði á Akureyri árið um kring og stefnir í vandræði með fjölgun ferðafólks í bænum líkt og Túristi hefur greint frá. Og samkvæmt nýrri greiningu KPMG, sem unnin var fyrir Markaðsstofu Norðurlands, þá eru stærri hótel og hótel í fjölmennari þéttbýliskjörnum svo gott sem fullbókuð yfir háannartímann.

Það eru því tækifæri í fjárfestingu í gistingu fyrir norðan enda útlit fyrir aukna eftirspurn yfir vetrarmánuðina samkvæmt niðurstöðum greiningar KPMG. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu KPMG sem kynnt verður á ráðstefnu í Hofi á Akureyri í dag.

Aukin eftirspurn skrifast meðal annars á aukið millilandaflug til og frá Norðurlandi til viðbótar við mikla eftirspurn eftir Íslandi sem áfangastað og fjölgun ferðamanna sem fljúga til Keflavíkur.

„Eftirspurn eftir Norðurlandi er greinilega að aukast og einnig þrýstingur frá erlendum ferðaskrifstofum sem selja Ísland að bæta fjölbreyttari vörum í framboð sitt til ferðamanna. Hlutfall endurkomufarþega er að hækka og stefnir stór hluti þeirra sem vilja koma aftur til Íslands á það að heimsækja Norðurland og Vestfirði. Fjárfesting í afþreyingu er greinilega að skila sér og stýrir því að einhverju leyti hvert ferðamenn fara þó náttúruperlur séu enn efst á listanum yfir það. Innanlandsmarkaður er sterkur hér á Norðurlandi, framboð af flugi stöðugt að aukast og tækifærin til uppbyggingar á svæðinu aldrei verið fleiri en nú,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, í tilkynningu.