Samfélagsmiðlar

„Það er galið að loka veginum að Dettifossi“

Nú er vetrarfærð á nokkrum vinsælum ferðamannaleiðum á Norðausturlandi og þar með eru skilyrði fyrir því að efla ferðaþjónustu utan háannatímans skert verulega. Ferðaþjónustan fyrir norðan hefur lengi barist fyrir aukinni þjónustu Vegagerðarinnar. Bent er á að ekki sé forsvaranlegt að Demantshringurinn lokist 1. nóvember.

Dettifossleið

Dettifossvegur ekinn á sérútbúnum jeppa

Það virðist vilji allra að dreifa ferðafólki meira um landið. En til að það megi verða er auðvitað frumskilyrði að vinsælar ferðamannaleiðir séu færar – ef veður á annað borð leyfir. Meðal þeirra sem voru óþreytandi að benda á að slök vetrarþjónusta á vegum fyrir norðan hamlaði vexti í ferðaþjónustu var Pétur Snæbjörnsson, fyrrverandi hótelstjóri í Reynihlíð.

Vegakortið á Norðausturlandi 1. nóvember 2022

Þetta á ekki síst við um Dettifossveg sem byggður hefur verið upp og er mikilvægur ferðaþjónustunni. Í dag, 1. nóvember, er Dettifossvegur lokaður venjulegum bílum. Fara verður á breyttum jeppum að fossinum mikilfenglega.

Málefni Dettifossvegar hafa verið tekin upp á þingi, m.a. í vor af Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Hún sagði að ekki gengi upp að hafa takmarkaða mokstursþjónustu á jafn mikilvægum vegi. Þingmaðurinn vísaði til svonefndrar G-reglu Vegagerðarinnar, sem gildir um veginn að Dettifossi frá þjóðvegi eitt. Vegurinn er ruddur tvisvar í viku bæði að vori og hausti ef snjólétt er, sem þýðir að hvergi má vera snjóþungt á leiðinni. Hausttímabilið er skilgreint til 1. nóvember og vortímabilið frá 20. mars. Heimildir eru fyrir meiri mokstri en þá með kostnaðarþátttöku sveitarfélaga til 5. janúar. Hingað til hefur það þýtt að vegurinn er í raun lokaður um háveturinn.

Dettifoss í vetrarham – Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Markaðsstofa Norðurlands hefur á síðustu árum ítrekað óskir um mokstur á Dettifossvegi, enda er hann hluti leiðar sem hefur verið markaðssett og kynnt sem eitt helsta aðdráttarafl Norðurlands – Demantshringurinn. Vegagerðin hefur lýst skilningi á þessum sjónarmiðum en bent á að svigrúmið sé lítið. Það gæti þurft að skerða þjónustu annars staðar á móti.

Núverandi framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Arnheiður Jóhannsdóttir, talaði alveg skýrt á morgunfundi Íslandsbanka á Akureyri í síðustu viku þegar hún sagði: „Það er galið að loka veginum að Dettifossi.“

Í viðtali við Túrista eftir fundinn lagði Arnheiður áherslu á mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög ynnu með ferðaþjónustunni við að efla ferðaþjónustuna út á landi – þar sem tækifærin væru: „Veginum er lokað þegar snjóa fer. Það er enginn fyrirsjáanleiki. Þetta er auðvitað galið út frá því að af þessum sökum er ekki hægt að markaðssetja Dettifoss og líka út frá öryggisástæðum. Ferðafólk keyrir að fossinum á litlum bílum og áttar sig ekki á hættunni. Við eigum mjög erfitt með að kynna erlendu ferðafólki núverandi stöðu á þessu svæði – í Demantshringnum.”

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands – Mynd: ÓJ

Arnheiður bindur vonir við að viðræður við ráðherra samgöngu- og ferðamála skili árangri og að Dettifossvegi verði haldið opnum í vetur.

Túristi óskaði viðbragða frá Vegagerðinni vegna óska ferðaþjónustufólks fyrir norðan. Í svari frá G.Pétri Matthíassyni, upplýsingafulltrúa, segir að ekki séu önnur svör en þau að mikill halli sé á vetrarþjónustunni „og því trauðla forsvaranlegt að auka hana án þess að tekið sé á því á einhvern hátt.“ Þjónustan frá hringvegi að Dettifossi sé samkvæmt G-reglu en engin vetrarþjónusta sé frá Dettifossi og norður um á Norðausturveg. Upplýsingafulltrúinn lýsir því hvað felst í G-reglunni en lýkur svarinu með þessum orðum: „Það hafa komið fram tillögur um frekari þjónustu en þær markast af fjárveitingum.“

Við Dettifoss – Mynd: Markaðsstofa Norðurlands
Nýtt efni

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …