Samfélagsmiðlar

„Það er galið að loka veginum að Dettifossi“

Nú er vetrarfærð á nokkrum vinsælum ferðamannaleiðum á Norðausturlandi og þar með eru skilyrði fyrir því að efla ferðaþjónustu utan háannatímans skert verulega. Ferðaþjónustan fyrir norðan hefur lengi barist fyrir aukinni þjónustu Vegagerðarinnar. Bent er á að ekki sé forsvaranlegt að Demantshringurinn lokist 1. nóvember.

Dettifossleið

Dettifossvegur ekinn á sérútbúnum jeppa

Það virðist vilji allra að dreifa ferðafólki meira um landið. En til að það megi verða er auðvitað frumskilyrði að vinsælar ferðamannaleiðir séu færar – ef veður á annað borð leyfir. Meðal þeirra sem voru óþreytandi að benda á að slök vetrarþjónusta á vegum fyrir norðan hamlaði vexti í ferðaþjónustu var Pétur Snæbjörnsson, fyrrverandi hótelstjóri í Reynihlíð.

Vegakortið á Norðausturlandi 1. nóvember 2022

Þetta á ekki síst við um Dettifossveg sem byggður hefur verið upp og er mikilvægur ferðaþjónustunni. Í dag, 1. nóvember, er Dettifossvegur lokaður venjulegum bílum. Fara verður á breyttum jeppum að fossinum mikilfenglega.

Málefni Dettifossvegar hafa verið tekin upp á þingi, m.a. í vor af Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Hún sagði að ekki gengi upp að hafa takmarkaða mokstursþjónustu á jafn mikilvægum vegi. Þingmaðurinn vísaði til svonefndrar G-reglu Vegagerðarinnar, sem gildir um veginn að Dettifossi frá þjóðvegi eitt. Vegurinn er ruddur tvisvar í viku bæði að vori og hausti ef snjólétt er, sem þýðir að hvergi má vera snjóþungt á leiðinni. Hausttímabilið er skilgreint til 1. nóvember og vortímabilið frá 20. mars. Heimildir eru fyrir meiri mokstri en þá með kostnaðarþátttöku sveitarfélaga til 5. janúar. Hingað til hefur það þýtt að vegurinn er í raun lokaður um háveturinn.

Dettifoss í vetrarham – Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Markaðsstofa Norðurlands hefur á síðustu árum ítrekað óskir um mokstur á Dettifossvegi, enda er hann hluti leiðar sem hefur verið markaðssett og kynnt sem eitt helsta aðdráttarafl Norðurlands – Demantshringurinn. Vegagerðin hefur lýst skilningi á þessum sjónarmiðum en bent á að svigrúmið sé lítið. Það gæti þurft að skerða þjónustu annars staðar á móti.

Núverandi framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Arnheiður Jóhannsdóttir, talaði alveg skýrt á morgunfundi Íslandsbanka á Akureyri í síðustu viku þegar hún sagði: „Það er galið að loka veginum að Dettifossi.“

Í viðtali við Túrista eftir fundinn lagði Arnheiður áherslu á mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög ynnu með ferðaþjónustunni við að efla ferðaþjónustuna út á landi – þar sem tækifærin væru: „Veginum er lokað þegar snjóa fer. Það er enginn fyrirsjáanleiki. Þetta er auðvitað galið út frá því að af þessum sökum er ekki hægt að markaðssetja Dettifoss og líka út frá öryggisástæðum. Ferðafólk keyrir að fossinum á litlum bílum og áttar sig ekki á hættunni. Við eigum mjög erfitt með að kynna erlendu ferðafólki núverandi stöðu á þessu svæði – í Demantshringnum.”

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands – Mynd: ÓJ

Arnheiður bindur vonir við að viðræður við ráðherra samgöngu- og ferðamála skili árangri og að Dettifossvegi verði haldið opnum í vetur.

Túristi óskaði viðbragða frá Vegagerðinni vegna óska ferðaþjónustufólks fyrir norðan. Í svari frá G.Pétri Matthíassyni, upplýsingafulltrúa, segir að ekki séu önnur svör en þau að mikill halli sé á vetrarþjónustunni „og því trauðla forsvaranlegt að auka hana án þess að tekið sé á því á einhvern hátt.“ Þjónustan frá hringvegi að Dettifossi sé samkvæmt G-reglu en engin vetrarþjónusta sé frá Dettifossi og norður um á Norðausturveg. Upplýsingafulltrúinn lýsir því hvað felst í G-reglunni en lýkur svarinu með þessum orðum: „Það hafa komið fram tillögur um frekari þjónustu en þær markast af fjárveitingum.“

Við Dettifoss – Mynd: Markaðsstofa Norðurlands
Nýtt efni

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …