Samfélagsmiðlar

„Tilbúnir að grípa tækifæri sem gefast“

Aðstandendur Norlandair berja ekki í bumbur til að draga að sér athygli. Þeir hafa hljótt um sig eins og veiðimaðurinn á Grænlandsísnum. Best er að fara varlega, styðjast við reynslu og þekkingu. Meginstoðin í starfi Norlandair er leiguflug við krefjandi aðstæður á Grænlandi en félagið sinnir einnig ríkisstyrktu flugi hérlendis. 

Arnar Friðriksson, sölu- og markaðsstjóri Norlandair á Akureyri

Þó að Norlandair sé ekki ýkja gamalt félag í sjálfu sér, stofnað á því háskalega ári 2008 – korteri fyrir bankahrun – þá byggist starfsemin á gömlum grunni og frumkvöðlastarfi flugkappa eins og Tryggva Helgasonar og Sigurðar Aðalsteinssonar.

Upphafið má rekja til Norðurflugs, síðar Flugfélags Norðurlands. Það var árið 1975 sem leiguflug á Grænlandi hófst og því sinnir Norlandair nú af krafti.

Samgöngur á Grænlandi: Sleðahundur og Twin OtterMynd: Norlandair

Árið 2008 ákvað Flugfélag Íslands, sem Flugfélag Norðurlands hafði áður sameinast, að selja Twin Otter-vélar sínar, en þær höfðu lengi verið gerðar út frá Akureyri. Akureyringum leist illa á blikuna og leiddi Friðrik Adólfsson, þá deildarstjóri leiguflugsdeildar Flugfélags Íslands, hóp fjárfesta sem keypti vélarnar. Markmiðið var að halda áfram leiguflugi á Grænlandi með bækistöðvar á Akureyri.

Erlent heiti gamla Flugfélags Norðurlands var skellt á nýtt félag: Norlandair – og inn í það runnu Fjarðarflug og Norðanflug. Friðrik varð framkvæmdastjóri. Árið 2011 bættist Air Greenland í hluthafahópinn en aðrir aðaleigendur eru KEA, Samherji og Friðrik sjálfur.

Í núverandi flota Norlandair eru fimm flugvélar: Þrjár 19 sæta Twin Otter-vélar og tvær Beechcraft King Air með níu farþegasætum. 

Horft inn í gömlu, góðu Twin Otter – Mynd: ÓJ

Túristi renndi á dögunum heim að höfuðstöðvum Norlandair við Akureyrarflugvöll og hitti þar fyrir son stofnandans, Arnar Friðriksson, sem er sölu- og markaðsstjóri félagsins. Við byrjuðum á því að draga upp stóru myndina af litlu flugfélagi, sem flýgur innanlands til nokkra fámennra staða í áætlunarflugi með ríkisstuðningi ásamt því að sinna sjúkraflugi – en meginverkefnið er leiguflug á Grænlandi.

Túristi veltir fyrir sér þessu viðskiptamódeli. 

Úr Grímsey – Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

„Norlandair er ekki á venjulegum neytendamarkaði nema í þessu áætlunarflugi, þar sem aðalatriðið er að hafa tíðnina rétta og hóflega gjaldtöku til að fólk noti þjónustuna. Það eru okkar leiðarljós. Við fljúgum samkvæmt samningum við ríkið að undangengnu útboði Vegagerðarinnar.

Flogið er frá Akureyri í þríhyrning, til Vopnafjarðar og Þórshafnar, og svo til Grímseyjar. Frá Reykjavík er flogið til Bíldudals og Gjögurs. Svo erum við með samning við Grænlensku heimastjórnina til 10 ára um flug tvisvar í viku árið um kring til Nerlerit Inaat (Constable Point) á Grænlandi, önnur ferðin er frá Akureyri en hin frá Reykjavík.”

Lent á Grænlandsjökli – Mynd: Norlandair

Hvernig nýtast þessar fimm flugvélar félagsins?

„Twin Otter-vélarnar nýtast í leigufluginu til austurstrandar Grænlands. King Air-vélarnar geta bara lent í Nerlerit Inaat, Meistaravík og herstöðinni Station Nord en koma sér vel í að styðja við verkefni á vesturströndinni, t.d. við áhafnaskipti. Útboðskilmálar varðandi áætlunarflugið hér innanlands fela í sér kröfur um jafnþrýstibúnað, sem King Air-vélarnar hafa en ekki Twin Otter. “ 

Ittoqqortoormiit (Scoresbysundi) á Austur-Grænlandi hefur verið lýst sem einni afskekktustu byggð á jörðinni. Þar búa um 350 manns. Áður var flogið þangað frá Nuuk en nú tengir Norlandair þessa litlu byggð við umheiminn með flugi til Nerlerit Inaat frá Akureyri og Reykjavík. Greenland Air flýgur síðan með farþega og farangur frá Nerlerit Inaat á þyrlum til Ittoqqortoormiit.

Farangur, matur og vistir, tekinn úr vélinni – Mynd: ÓJ

„Við byrjuðum á því að fljúga þangað á markaðsforsendum frá vori og um sumarið. Heimastjórnin bauð síðan út flugið og gerði skammtímasamning við okkur. Síðan hafa samningar verið endurnýjaðir til 10 ára. Við fljúgum mikið með mannskap, vistir og búnað, fyrir danska herinn og opinberar stofnanir, námafyrirtæki og vísindamenn sem sinna rannsóknum á náttúru og auðævum í jörðu. Áður en ráðist er í framkvæmdir þarf að gera athuganir og umhverfisskýrslur. Á næsta ári eigum við fljúga með mannskap sem ætlar að telja ísbirni. Svo höfum við tekið þátt í talningu á náhvölum og öðrum sjávarspendýrum. 

Upphafspunktur okkar í fluginu um austurströndina er Nerlerit Inaat. Twin Otter er þannig flugvél að ekki er alltaf þörf á flugvelli heldur aðeins lendingarstað. Norlandair er með skráða yfir 200 lendingarstaði á Austur-Grænlandi.

Við erum minna á vesturströndinni en höfum þó farið að Thule-herstöðinni og upp á jökulinn. Svo erum við með sjúkraflugsvakt frá Nuuk og fljúgum þaðan um allt.”

Twin Otter á skíðum – Mynd: Norlandair

Aðstæður á Grænlandi eru krefjandi fyrir flugmenn.

„Klárlega. Þess vegna þurfa menn að fara í gegnum mikið þjálfunarprógram og afla sér reynslu. Aðstæður eru allt aðrar en t.d. í innanlandsflugi hér, minni tæknilegur stuðningur, en þetta hefur gengið mjög vel í öll þau ár sem við höfum verið á Grænlandi. Þetta er ekki hættulegt flug en menn þurfa að vera vel undirbúnir. Vel þjálfaðir.”

Verður Grænland helsti vettvangur ykkar til framtíðar?

„Þegar þú talar um framtíð þá hugsa ég til næstu fimm ára – og segi: Já. Á þeim tíma kemur í ljós hvort mörg verkefni í námuvinnslu verði að veruleika og hvert hlutverk Norlandair getur orðið. Markaðurinn er kvikur. Miklar breytingar geta orðið á skömmum tíma. Það er mikill áhugi á Grænlandi og það er öruggt að margt á eftir að gerast þar. Við verðum að vera tilbúnir að grípa tækifæri sem gefast.”

Grænlandsleiðangur – Mynd: Norlandair

Er Akureyri á góðum stað á kortinu til að halda þessu sambandi við Grænland?

„Akureyri er besti staðurinn til að tengjast austurströnd Grænlands vegna nálægðar. Þá er Akureyri með hátt þjónustustig, auðvelt að ná í það sem vantar. Menn þurfa að taka allt með sér til Grænlands og svo fara með allt til baka. Hér í bænum er sjúkrahús og aðrir innviðir sem henta austurströnd Grænlands, góður aðgangur að sérmenntuðu fólki, flugmönnum og flugvirkjum.”

Það er óhætt að segja að þeir hjá Norlandair séu sérfræðingar í flugi á Grænlandsflugi en þekkingin og búnaðurinn hentar vel til að sinna áætlunarfluginu til fámennu staðanna á Íslandi.

„Þetta fer vel saman. Lítið sem ekkert leiguflug er á Grænlendi í skammdeginu, frá nóvember út janúar. Það byrjar síðan aftur um miðjan febrúar. Þess vegna kemur sér vel að sinna fasta áætlunarfluginu á Íslandi með Grænlandsfluginu.”

Meginstöð Norlandair á Grænlandi er Nerlerit InaatMynd: Norlandair

Þið miðuðuð allt við flug frá Akureyri en af hverju ákváðuð þið að bjóða í flug frá Reykjavík til Bíldudals og Gjögurs sem Flugfélagið Ernir hafði sinnt?

„Þar spilar inn í að á Covid-tímanum lokaðist fyrir flugið á Grænlandi. Við þurftum að gera eitthvað.  Þessi viðbót hefur komið mjög vel út. Verkefnum fyrir King Air-vélarnar hefur fjölgað. Þær eru notaðar eingöngu í flugið til Bíldudals og Gjögurs. Hér fyrir norðan notum við báðar tegundirnar. Að vísu þýðir ekkert að nota King Air í Grímsey á sumrin vegna fuglanna. Þær koma of hratt til lendingar. Á Twin Otter fer miklu minna af fugli í hreyflanna af því að flogið er hægar.”

Flugvöllurinn í Grímsey – Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Sérðu fyrir þér að hægt væri að þróa það frekar að nota litlar flugvélar til að flytja fólk á afskekktustu staðina á landinu?

„Það er náttúrulega ekkert hraðsamgöngukerfi á Íslandi nema flugið. Flugfélagið Ernir flýgur milli Reykjavíkur og Hafnar en síðan er ekkert í gangi nema flugið frá Akureyri. Austfirðir eru afskiptir. Ef áhugi væri fyrir hendi, þá sæi maður fyrir sér að hraðsamgöngukerfi væri allan hringinn um landið – eins og var 1986. Þá flaug Flugfélag Austurlands áætlunarflug frá Egilsstöðum til sex staða á Austurlandi auk þess að fljúga til Reykjavíkur. Flugfélag Norðurlands flaug frá Akureyri til Siglufjarðar, Ólafsfjarðar, Kópaskers, Raufarhafnar, Þórshafnar, Vopnafjarðar, Egilsstaða og Ísafjarðar. Það voru í raun betri hraðsamgöngur á þeim tíma heldur en 2022. Við erum fá í landinu. Hinsvegar ef hægt er að búa til kerfi með réttri tíðni og hæfilegu gjaldi þá færðu farþega. Þetta er alltaf spurning að velja hentugasta farkostinn. Ég held að 50 sæta vélar séu fínar í leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur – eins og Fokkerinn var.”

Niceair tengir Akureyri við umheiminn og þið eruð hluthafar í félaginu. Svo er Condor að koma hingað næsta vor. Það mun reyna á Akureyrarflugvöll. Þið hér í fluginu fyrir norðan hafið ekki verið sátt við hægaganginn á umbótum.

„Eigum við ekki að segja að góðir hlutir gerist hægt.”

Það er díplómatískt svar.

Arnar í flugskýlinu á Akureyrarflugvelli – Mynd: ÓJ

„Jú, auðvitað hefði maður viljað sjá miklu hraðari uppbyggingu. Við sóttum árið 2012 um lóð til að byggja stærra flugskýli. Sú lóð er ekki enn tilbúin. Það er líka erfitt að starfrækja flugfélag út frá Reykjavíkurflugvelli, þar sem er verið að bola öllum í burtu. Það er mikið hagsmunamál fyrir Norðurland að byggja upp Akureyrarflugvöll og fá millilandaflug – skiptir okkur gríðarlega miklu máli.”

En Norlandair er fyrsta millilandaflugfélagið á Akureyri. Þið fljúgið meira að segja til annarrar heimsálfu!

„Já, flugið Grænlands er millilandaflug þó að vélarnar séu litlar og farþegarnir færri.” 

Jarðvegsvinna á uppfyllingum við Akureyrarflugvöll – Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …