Útboðsgengið yfir markaðsverði

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar og Birgir Jónsson, forstjóri Play í júní í fyrra þegar viðskipti hófust með hlutabréf flugfélagsins. MYND: PLAY

Þegar Play birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung síðastliðinn fimmtudag þá kostaði hver hlutur í flugfélaginu 15,2 krónur. Samhliða birtingu uppgjörsins var tilkynnt um hlutafjáraukningu þar sem 20 stærstu hluthafarnir hafa bundið sig til að leggja félaginu til 2,3 milljarða króna á genginu 14,6.

Þegar Kauphöllin opnaði á föstudaginn lækkaði gengið og sú þróun hefur haldið áfram í þessari viku því nú kostar hver hlutur 13,7 krónur. Lækkunin frá birtingu uppgjörsins nemur 11 prósentum.

Nú í kvöld tilkynnti Play svo að minni hluthöfum verður einnig boðið að kaupa nýja hluti í flugfélaginu á sama gengi og þeir 20 stærstu, þ.e. 14,6 krónur á hlut. Miðað við gengi dagsins geta hluthafar í raun keypt bréf í Play á lægra verði en í útboðinu í lok mánaðar. Þeir sem taka þátt í því fá þó aukalega áskriftarrétt á fleiri bréfum síðar.

Verði eftirspurn eftir öllum þeim hlutum sem í boði eru þá mun salan skila Play einum milljarði króna. Í útboðum Play í fyrra söfnuðust 10 milljarðar króna og útboðin sem framundan eru nema því þriðjungi af þeirri upphæð, í krónum talið.

Það er tekið fram í tilkynningu Play að þetta hlutafjárútboð til almennra hluthafa sé „fyrst og fremst til þess að tryggja jafnræði hluthafa.“ En líkt og Birgir Jónsson, forstjóri Play, fór yfir hér á síðunni þá verður nýtt fjármagn eingöngu nýtt til að styrkja lausafjárstöðu félagsins.

„Fólk er að spyrja eðlilega, hvað ætliði að gera við peninginn? Við segjum bara, nákvæmlega ekki neitt. Hann fer inn í banka þannig að við getum sýnt að það hafi vantað 20 milljónir dollara í reksturinn vegna hækkunar olíunnar innan ársins. Núna erum við búin að bæta það upp. Það er hin stutta skýring,“ útskýrði forstjórinn.